145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hvaða vitleysa er þetta? Er ekki forseta alveg ljóst að ástæðan fyrir því að við erum hér enn þá er sú að ráðherrann hefur ekki fengist til þess að hitta þingið? Forseti lætur hafa sig út í það að telja upp mismunandi skyldur ráðherra, bæði á erlendri grundu og í þágu Framsóknarflokksins í síðustu viku, en skyldan að hitta Alþingi er ekki efst á blaði. Hvar er eiginlega sú skylda?

Hér hafa verið haldnar tuttugu ræður í 2. umr. og allar fullar af spurningum til hæstv. ráðherra sem ekki hefur sést hér. Hann hefur ekki sést hér við 2. umr. Það er óásættanlegt annað, virðulegi forseti, en að gera hlé á umræðunni þangað til ráðherra hefur látið sjá sig hér í salnum og mér finnst óskiljanlegt annað en forseti verði við þeirri rökstuddu beiðni.