145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp tímaplan nefndarinnar, eins og ég gerði í fundarstjórn áðan, þar sem farið er yfir það mál sem ég hef gagnrýnt mjög.

Umsagnarfresti lauk 14. október eftir tíu eða fjórtán daga umsagnarfrest og komu að minnsta kosti fjórar umsagnir inn. Þann 15. október var fjallað um málið á venjulegum tíma. Þá komu fulltrúar ráðuneytisins og fóru yfir málið og auðvitað vitum við hvað kom fram úr því. Þeir eru traustir og tryggir sínum ráðherra við að fylgja frumvarpinu eftir, enda eiga embættismenn í sjálfu sér ekki að hafa skoðanir á því hvað frumvarp snýst um heldur svara þeir spurningum um það.

Það sem ég geri athugasemdir við, og ég þakka hv. þingmanni að taka undir það og vekja athygli á því, er að þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur verið nefndarformaður eins og ég og ég þekki ekki til svona vinnubragða á þingferli mínum, að í raun sé boðað af varaformanni nefndarinnar að það sé allt í lagi að umræddir gestir komi í fyrramálið, en að málið verði samt sem áður tekið út þá, áður en gestirnir koma. Það voru starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar og fleiri sem komu þar. Síðan var haldinn þessi dæmalausi fundur 16. október, sem var mótmælt, á sama tíma og mikil ráðstefna var haldin í Hörpu. Það er í raun óvirðing við þá ráðstefnu að halda fund á þeim tíma, ekki á fundartíma nefndarinnar. En það lá svo mikið á og málið rifið út úr nefnd.

Mín spurning til hv. þingmanns í þessu stutta andsvari er: Hefur hv. þingmaður kynnst svona vinnubrögðum í nefndarstarfi á þingferli sínum?