145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er gjörsamlega óþolandi staða sem hér er komin upp. Við stöndum núna frammi fyrir því að það er greinilegt að hæstv. ráðherra hunsar þingið af þvílíkri innlifun, liggur mér við að segja, að eftir því verður tekið um árabil. Það byrjar á því að hann tekur fram yfir þingstörf, sem hann er kjörinn til, að flandra um sveitir til að tala við framsóknarmenn. Síðan er hann í embættiserindum erlendis.

Hvenær kemur að því að hann sinni Alþingi? Eru orð forseta þingsins einskis virði? Forseti þingsins segir hér við okkur að ráðherrann muni koma hér til samtals við okkur um þetta mál — og hvað gerist? Hann kemur ekki.

Ég er farin að hallast því, virðulegi forseti, að það sé komið að því að halda þurfi fund í forsætisnefnd, og við þurfum að fara að ræða hér samskipti ráðherra (Forseti hringir.) ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Þetta er orðið miklu alvarlegra mál en að þetta snúist bara um Þróunarsamvinnustofnun og þennan tiltekna ráðherra.