145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er óþægilegt ofan á annað að menn skuli svo koma hér upp í ræðustól og þræta fyrir staðreyndir. Á þessu þingi, 145. löggjafarþingi, hefur ekki verið farið yfir umsagnir þessa máls og það ekki heldur þótt hv. formaður utanríkismálanefndar sé nýr í nefndinni og hafi komið algjörlega nýr að málinu á 145. þingi sem hófst í haust. Það hefur ekki verið fjallað um málið, þ.e. umsagnir í málinu, á þessu þingi. Það er það sem verið er að gagnrýna hér.

En ég tek undir það, virðulegi forseti að þessi fjarvera ráðherrans er orðin svo mikil vanvirðing við þennan vettvang, Alþingi Íslendinga, sem er samræðuvettvangur, að það verður ekki undan því vikist (Forseti hringir.) að forsætisnefnd komi saman og fari yfir það hvaða verklag skuli viðhaft þegar tugir þingmanna (Forseti hringir.) kalla eftir viðveru ráðherra að gefnu tilefni.