145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki þung rökin í fyrrverandi formanni Lögmannafélagsins. Ef þau rök ættu við um alla hluti þá hlýtur það að vera stefna núverandi stjórnvalda að draga til sín í ráðuneytið allar þær stofnanir sem eru til staðar. Fram hefur komið að umrædd stofnun per se er með best reknu stofnunum hér á landi. Hún hefur fengið það uppáskrifað frá Ríkisendurskoðun og líka frá þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, að bæði faglega og vel sé farið með þá fjármuni sem hún fær til að vinna með.

Það sem reynt er að rökstyðja í greinargerð og nefndaráliti meiri hlutans hefur ekkert á bak við sig annað en orðagjálfur um hagkvæmni og sparnað sem ekki er hægt að sýna fram á. Skrifstofa opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu segir eitthvað á þá leið að til framtíðar litið gætu fjármunir hugsanlega sparast, hugsanlega. Ekki er djúpt í árinni tekið. Þess vegna verður að segjast eins og er að ekki er nóg að koma með einhverja upptalningu og óskalista um að þetta gæti allt orðið miklu, miklu betra. En betra fyrir hvern, spyr ég? Betra fyrir þau stjórnvöld sem ríkja núna sem vilja skera allt niður við nögl sem snýr að velferðarmálum, þróunarsamvinnu og velferð þeirra sem minna mega sín? Ég hef ekki mikla trú á þeirri umhyggju sem fylgir því að tala fyrir því á þann veg eins og hv. þingmaður gerir, (Forseti hringir.) að þarna sé um hagkvæmni og sparnað að ræða. Ég treysti ekki innihaldi þeirra orða.