145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:34]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hægt að vera ósammála þessum rökum, en það er ekki hægt að segja að ekki séu rök fyrir þessu. Við getum deilt um þetta. (LRM: Þetta er bara upptalning.) Þetta eru auðvitað rök. Það er alla jafna þannig og má ætla að það sé þannig að þegar tveir aðilar sjá um málaflokk sem skarast að miklu leyti þá sé hagkvæmara að hafa það í einni einingu. Það er bara útúrsnúningur að tala um að best sé að allar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið fari bara inn í ráðuneytið. Það er auðvitað spurning hverju sinni hvernig verkefnin skarast og hvað getur verið hentugt. Það er ekki þannig að allar stofnanir eigi að fara inn í ráðuneytið með sömu rökum.

Þetta er stofnun sem sinnir ákveðnu hlutverki. Hún er mjög lítil. Ég get alveg skilið að menn telji málaflokknum betur borgið þannig. Það má vel vera. Við getum rökrætt það. Við erum að vísu búin að rökræða það í 40 klukkustundir, allt í lagi, (ÖS: Ekki þú.) á þinginu er búið að rökræða það. Ég hef alltaf komið hingað reglulega, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (Gripið fram í.) Nei. Ég er bara að segja að það eru auðvitað rök. Við getum verið ósammála þeim, við getum reynt að hnekkja þeim, en sá málflutningur um að það séu engin rök og þetta sé bara einhver geðþóttaákvörðun, verið sé að reyna að eyðileggja þróunarsamvinnu o.s.frv., svona samsæriskenningar eru auðvitað bara tóm della.

Tökum rökræðuna. Klárum hana. Það getur vel verið að stjórnarandstæðingar geti sannfært marga stjórnarþingmenn um að betur sé heima setið en af stað farið í þessu máli. Gerum það. Klárum málið. (Gripið fram í: Þetta eru fullyrðingar …) Það eru almenn rök að það geti verið hagkvæmt þegar tveir aðilar sjá um hluti sem skarast. Það er alveg þekkt og þarf ekkert að fjalla neitt nánar um það. Við getum verið ósammála. Við gætum talið að betra væri að hafa sérstaka stofnun um þetta. Við gætum rökstutt það með einhverjum hætti. Gott og vel. En það eru rök. (Forseti hringir.)