145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:26]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð tillögu forseta um áframhaldandi umræðu um þetta mál. Það er greinilega mikil þörf á því og þá höldum við því áfram næstu daga og vikur ef þess þarf. Ég held í raun og veru að við verðum bara að horfast í augu við það að ágreiningur er um efni þessa frumvarps. Það hefur legið fyrir, liggur fyrir á þessu þingi og lá fyrir á síðasta þingi.

Það er fráleitt að tala um að málið hafi einhvern veginn verið keyrt í gegn. Við erum búin að ræða það í þessum sal í 40 klukkustundir. Í 40 klukkustundir höfum við rætt þetta mál … (Gripið fram í.) Heyrðu, er ég með orðið? (Gripið fram í: Það á að vinnast í nefndinni.) 40 klukkustundir, það hefur verið rætt á 12 fundum utanríkismálanefndar og reynum síðan að tala um að það hafi ekki verið talað um það í utanríkismálanefnd. Á 12 fundum utanríkismálanefndar hefur málið verið rætt. (Gripið fram í.) Allir nefndarmenn í utanríkismálanefnd áttu þess kost að óska eftir því að gestir kæmu á fundinn og var orðið við öllum þeim beiðnum. Allir þeir sem óskað var eftir að kæmu á fund nefndarinnar komu á fund nefndarinnar. Það var ekki ágreiningur um það í utanríkismálanefnd þegar málið var keyrt út. (Forseti hringir.) Það var ekki keyrt út af neinni hörku heldur af eðlilegri málsmeðferð. Mér skilst að málið eigi að koma aftur til meðferðar og umræðu á vettvangi utanríkismálanefndar. Við höldum þá áfram umræðunni en það snýst ekki um formið heldur ágreining um efni frumvarpsins. Förum því að greiða atkvæði um það.