145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki lái ég hv. þingmanni að eiga erfitt með að svara fyrir hönd ráðherra Framsóknarflokksins. Það er auðvitað skiljanlegt (Gripið fram í.) en rétt er vekja athygli á þeirri athyglisverðu stöðu að það skuli vera sá stjórnmálaflokkur sem í orði kveðnu segist vera á miðju íslenskra stjórnmála hvers ráðherrar virðast eiga erfiðara en forustumenn nokkurra annarra flokka í þinginu með að nálgast sjónarmið annarra eða miðla málum eða bjóða upp á samræðu um sameiginlega niðurstöðu. Þó er í þingflokki Framsóknarflokksins gott dæmi um hið gagnstæða sem er það glæsilega leiðtogahlutverk sem hv. formaður umhverfisnefndar tók sér í náttúruverndarlögunum á dögunum og hæstv. utanríkisráðherra mætti taka sér til fyrirmynda.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún hafi áhyggjur af að þessar skipulagsbreytingar geti aukið hættu á spillingu í tengslum við Þróunarsamvinnustofnun, svo að við tölum bara hreina íslensku. Hér er auðvitað um að ræða ráðstöfun verulegra fjármuna í málaflokki þar sem slíkt í öðrum löndum hefur því miður margsinnis hent, ekki síst í samspili stjórnmálalífs og viðskiptalífs og í aðkomu þeirra síðartöldu að illa skilgreindum verkefnum með takmörkuðu eftirliti í löndum langt í burtu.