145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ætla svo sem ekki að gera ágreining við hann á þessu stigi um einstök efnisatriði málsins en spyrja hann kannski fyrst og fremst tveggja spurninga.

Í fyrsta lagi er varðar kostnaðarmat frumvarpsins. Fram kemur að gert sé ráð fyrir töluverðum kostnaði og þá fyrst og fremst í Stjórnarráðinu vegna innleiðingar málsins. Raunar kemur fram núna í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið að gert er ráð fyrir hvorki meira né minna en 144 millj. kr. inn á næsta ár út af innleiðingu málsins til einstakra ráðuneyta, þar sem ráðuneytin fá sitt á hvað 12 og 24 milljónir í sinn rekstur. Þar er vísað beinlínis í framkvæmd þessa tiltekna frumvarps.

Vegna þess að fram kemur — óskaplegur hávaði er hér í hliðarsal — í nefndaráliti meiri hlutans að mikilvægt sé að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, og töluvert mæðir á Alþingi við innleiðingu málsins, og í samtals 19 greinum í frumvarpinu er beinlínis gert ráð fyrir aðkomu Alþingis, þá spyr ég hv. þingmann, af því að hann og meiri hlutinn gera ekki ágreining við fjármálaráðuneytið um kostnaðarmat frumvarpsins, hvernig hann telji að Alþingi geti komið til móts við þátt sinn í breyttri framkvæmd við meðferð og úrvinnslu fjárlaga og ekki síður breytingartillagna og aðkomu minni hlutans í þeim efnum. Telur hann að aðkoma Alþingis sé tryggð nægilega með þeim hætti sem kemur hér fram og í þeim gloppum bæði í kostnaðarmatinu og ekki síður í þeim breytingartillögum sem komið hafa frá ríkisstjórninni við 2. umr. fjárlaga?