145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þetta frumvarp og fögnum því að það sé fram komið. Ég verð að segja að mér finnst vanta upp á að í nefndarálitum komi fram að þetta mál var eitt af forgangsmálum fyrri ríkisstjórnar, þó að fram komi á einum stað í frumvarpinu að vinna við það hafi hafist 2011. En málið var sett af stað af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann var fjármálaráðherra til að reyna að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur lenti aftur í sömu hremmingum og hrun fjármálakerfisins og hrun íslensku krónunnar leiddi yfir okkur vegna skuldsetningar ríkisstjórnar. Þegar Steingrímur J. Sigfússon hætti að vera fjármálaráðherra tók hv. þm. Oddný G. Harðardóttir við og síðan hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, þær voru báðar fjármálaráðherra og fylgdu málinu eftir af mikilli festu. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson er því sá fjórði í röðinni sem vinnur að þessu frumvarpi og mér hefði þótt það eðlileg kurteisi að fara betur yfir sögu málsins í nefndaráliti.

Þess má geta, þar sem það kemur ekki heldur fram þar, að þegar verið var að undirbúa þetta mál á síðasta kjörtímabili fór fjárlaganefnd sína fyrri ferð til Svíþjóðar til að kynna sér þar umgjörð ríkisfjármála. Heimsóttum við þar fjölmargar stofnanir og fengum betri skilning á því hvernig þetta kerfi virkar. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er því sameiginlegt frumvarp alls þingsins og lýsir þeim vilja Alþingis að skýra markmið opinberra fjármála og treysta umgjörðina um þau.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði um að gaman hefði verið að setja þessi viðmið á gjörðir fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hefði sannarlega ekki rúmast innan þessa frumvarps, sem verður vonandi að lögum. En ég vil leyfa mér að efast um að sú ríkisfjármálastefna sem rekin er í dag sé í samræmi við markmið þessa frumvarps enda hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tekið upp gamlan ósið hægri stjórna á Íslandi að þegar hér birtir til í efnahagslífinu er byrjað að lækka skatta og ýta undir alls kyns þenslumyndandi starfsemi í hagkerfinu sem síðan leiðir til ofhitnunar. Í kjölfarið lendum við auðvitað í kreppu. Kreppurnar eru misalvarlegar og sú alvarlegasta varð náttúrlega árið 2008. Samhliða skattalækkunum og eyðileggingum á hálendi Íslands sem urðu síðan að Kárahnjúkavirkjun var einnig búið að einkavæða bankana og afhenda þá vinum Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sem léku síðan lausum hala þangað til bankarnir hrundu eftir að hafa orðið tíu sinnum stærri en verg landsframleiðsla íslenska þjóðarbúsins. Nú erum við byrjuð aftur á skattalækkunum sem þýðir í eðlilegu árferði að þegar við förum úr uppsveiflu í niðursveiflu verður tekjugrunnur ríkisins ekki nægilega sterkur og öflugur til að afla nauðsynlegra tekna fyrir hina eðlilegu starfsemi ríkisins. Og þó að ég segi að við í Samfylkingunni séum sammála þessu frumvarpi erum við algerlega ósammála meiri hluta Alþingis þegar kemur að stefnu í ríkisfjármálum.

Við viljum ekki minnka umfang ríkissjóðs því að of lítill ríkissjóður veldur því að samdráttur verður í opinberri þjónustu. Það grefur undan mennta- og heilbrigðiskerfinu til lengri tíma og vinnur gegn markmiðum um jöfnuð. Það er mikilvægt að reyna að ná tekjujöfnuði og draga úr ójöfnuði í ráðstöfunartekjum, en jöfnuður er ekki síður mældur í aðgengi okkar að ýmissi mikilvægri þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og menntun óháð efnahag þar sem við eigum að hafa það að markmiði að sú þjónusta kosti sem minnst og sé aðgengileg fyrir alla óháð efnahag því að það hefur sýnt sig að vera sú leið sem helst leiðir til heilbrigðis, sem skapar samfélög þar sem sátt ríkir og minna er um glæpi og fólki líður betur auk þess sem samfélög með góðri og öflugri velferðarþjónustu ýta undir vilja fólks til að vinna, það sýna erlendar rannsóknir, og eru líklegri til að skapa hagvöxt. Þeir sem í slíku samfélagi búa eru óhræddari við að taka áhættu með því að byggja upp fyrirtæki, stofna eigin fyrirtæki því að við vitum að ef illa fer þá er öryggisnet sem grípur okkur. Þess vegna viljum við jafnaðarmenn að ríkissjóður sé umfangsmeiri en hægri stjórnin stefnir að nú. Við erum jafnframt ósammála skattstefnunni, við teljum ekki bara að hún sé ósjálfbær eins og hún er rekin af hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, heldur viljum við halda í skattþrepin þrjú sem innleidd voru hér eftir hrun því að þá greiðir fólk hlutfallslega meira af sköttum eftir því sem það er með hærri tekjur og skattlagningin er réttlátari. Skattar hafa það auðvitað að meginmarkmiði að afla tekna fyrir ríkissjóð. En svo eru fleiri markmið sem við viljum leitast við að ná eins og þeim að auka tekjujöfnuð í landinu.

Mér fannst nauðsynlegt að fara út í þetta hérna af því að það verður pínulítið eins og öfugmælavísa þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fara að tala um aga í ríkisfjármálum. Þeim er ekki mjög lagið að fara með hagstjórn þó að þeir hafi viljað láta líta út fyrir annað í sögunni, en við erum með dæmi sem sanna aldeilis annað. En þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók hér við og allt var í kaldakoli var hér fjármálaráðherra hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem sýndi eindæma hugrekki og dugnað í stjórn ríkisfjármála. Hann þurfti að takast á við mjög erfiðan niðurskurð, en á sama tíma voru gerðar skattkerfisbreytingar til langs tíma sem höfðu til skamms tíma þau markmið að tryggja okkur fyrir því að þurfa ekki að skera enn meira niður og til lengri tíma að auka jöfnuð. Þessar aðgerðir skiluðu strax árangri og enn sem komið er mælist jöfnuður óvíða meiri en einmitt á Íslandi.

Mig langaði að gera fjármálaráðið að umtalsefni. Ég er mjög ánægð með að hér eigi að innleiða fjármálaráð og ég vona að við berum gæfu til að skipa það óhlutdrægu fólki sem hefur djúpan skilning á opinberum fjármálum en gengur ekki erinda ákveðinna stjórnmálaflokka. Svo ég fari yfir hlutverk fjármálaráðsins er það að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi grunngildum 6. gr. og skilyrðum 7. gr. Ráðið á að vera skipað þremur ráðsmönnum og formanni. Þau eiga öll að hafa háskólapróf og skila inn umsögn til Alþingis. Það er reyndar búið að stytta tímann niður í tvær vikur til að Alþingi fái umsögnina og geti haft hana með í umræðu um ríkisfjármálaáætlun. Ég geri þá ráð fyrir því að fjármálaráðið fái tækifæri til að kynna sér ríkisfjármálaáætlunina á vinnslustigi í ráðuneytinu því að tvær vikur eru náttúrlega tiltölulega skammur tími ef gera á einhverja alvöruúttekt. En ég vona sem sagt að við berum gæfu til að velja þetta ráð af kostgæfni og hafa það óhlutdrægt.

Þegar fjármálaráðið var innleitt í Svíþjóð voru sósíaldemókratar þar mjög fullir efasemda og höfðu áhyggjur af því að þar yrði ekki gætt hlutleysis. Yfir fjármálaráðinu var skipaður hagfræðingur, Lars Calmfors, sem er mjög hægri sinnaður en þekktur hagfræðingur og virtur í Svíþjóð. Ég verð að segja að ég hafði mikinn áhuga á skrifum hans og þótt ég væri alls ekki alltaf sammála honum var hann vandaður fræðimaður. Hann var formaður þessa ráðs og tók strax fram að ekki væri verið að ívilna hægri stjórn. Þar var gagnrýnt það sem gagnrýna þurfti án þess að setja það í felubúning eða hlífa ríkisstjórninni, sem þá var hægri stjórn, við því að sæta gagnrýni fyrir það sem fjármálaráðið taldi óskynsamlegt í ríkisfjármálaáætlun. Síðan er það þannig með allar áætlanir og úttektir á áætlunum að þær eru mannanna verk og það eru alltaf persónurnar sem í hlut eiga sem hafa áhrif á hvernig unnið er. En við eigum í lengstu lög að gæta þess að öll sú vinna sé trúverðug og hafin yfir flokkspólitískan vafa. Ég fagna því þess vegna að við fáum slíkt fjármálaráð og ég held að það geti þroskað umræðuna um opinber fjármál á Íslandi og geti líka auðveldað fjölmiðlum að beita eftirlitshlutverki sínu sem fjórða valdið á okkur sem förum með fjárveitingavaldið.

Ég var í andsvörum við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um byggðamálin. Flokkur hennar hefur skilað nefndaráliti, séráliti minni hlutans í fjárlaganefnd. Þar gerði fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, athugasemdir við að í skilgreiningu um sjálfbærni opinberra fjármála sé aðallega litið til efnahagslegra þátta en hún vill að inn komi félagslegir og umhverfislegir þættir. Ég verð að játa að ég er nokkuð sammála hv. þingmanni varðandi það. Nú síðar í mánuðinum munu allar þjóðir heims mætast í París til að koma sér saman um leiðir til að forða okkur frá tortímingu mannkyns. Ég ætla kannski ekki að segja tortímingu mannkyns, en við erum að leiða miklar hremmingar yfir mannkynið, með ósjálfbærum hætti, alveg frá iðnbyltingu og þó sérstaklega á síðustu áratugum. Það kemur auðvitað misilla niður á ríkjum en það hefur skelfilegar afleiðingar. Markmiðið var að hlýnun jarðar yrði ekki meiri en tvær gráður, sem er samt svolítil áminning fyrir okkur því að tveggja gráðu hlýnun mun hafa mjög afgerandi áhrif á möguleika til byggðar á ákveðnum svæðum jarðarinnar, á veðurfar, hæð sjávarmáls og slíkt. En nú lítur út fyrir að við munum ekki einu sinni ná að halda okkur innan þessara tveggja gráða þó að í París eigi að freista þess að reyna að stöðva þessa óheillaþróun. Ég tel að það sé óeðlilegt að við setjum ekki þau markmið í ríkisfjármálastefnu okkar því að þetta er svo mikið hagsmunamál, ekki bara fyrir okkur heldur komandi kynslóðir, og þarf ekki að fara langt fram í tímann því að börn sumra okkar sem hér erum munu verða enn á lífi undir lok 21. aldarinnar og barnabörn okkar og annarra Íslendinga og annarra þjóða verða þá hér á jörðu og þurfa að takast á við þessar afleiðingar.

Það væri óskandi að við hér á Alþingi gætum sýnt þá forsjálni að setja þetta strax inn í lagaumgjörðina og vinna í samræmi við það. Fjárlög ríkisins eru stefnumarkandi plagg og hafa mjög mikil áhrif á þróun samfélagsins og í slíku plaggi eigum við að vera með markmið um sjálfbæra þróun út frá öllum þremur hliðum, þeirri efnahagslegu, þeirri félagslegu og umhverfisþáttunum. Ég hefði viljað sjá slíka breytingu og skil satt best að segja ekki af hverju hún var ekki gerð. Þá mætti alveg skoða á milli umræðna hvort Alþingi ætli ekki að skipa sér framar í röð þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsvánni.

Ég fagna því að meiri hlutinn fjallar hér um að þessi breytta framsetning á fjárlögum kunni að leiða til þess að breyta þurfi lögum um þingsköp. Ég hef ekki sett mig almennilega inn í það en ég trúi því að það verði unnið vel og vandlega þannig að allt passi saman. En svo segir hérna, með leyfi forseta:

„Þungi umræðna um ríkisfjármál færist því fram í tímann um nokkra mánuði.“ Það á við þegar ríkisfjármálaáætlunin er birt. Svo held ég áfram, með leyfi forseta:

„Þar með skapast svigrúm til þess að auka hlutdeild annarra nefnda þingsins í umfjöllun um meginlínur einstakra málefnasviða í tengslum við ríkisfjármálaáætlunina.“

Ég tel það algerlega nauðsynlegt því að í dag er aðkoma fagnefnda að fjárlagafrumvarpinu sáralítil og það er auðvitað fjárlaganefnd sem ber ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu og þeirri vinnu allri. Sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar virði ég algerlega þá verkaskiptingu enda er erfitt að of margir komi þar að. En Alþingi fer með fjárveitingavaldið og hvert og eitt okkar sem hér sitjum er þátttakandi í að fara með það vald. Við í velferðarnefnd, þar sem helmingur af fjárlögum íslenska ríkisins er undir, hvorki meira né minna, ef frá eru talin vaxtagjöldin, höfum sáralitla aðkomu að þessum málum og þá er ég ekki að tala um annað en bara það að fá almennilegar upplýsingar um fjárveitingar inn í málaflokkana. Ég tel því að efla eigi mjög upplýsingagjöf til Alþingis þannig að við getum líka skoðað þróunina í tímans rás því að það er mjög erfitt í dag.

Ég vonast til þess að nýgerða fjárlagafrumvarpið og ríkisfjármálaáætlun verði til þess fallin að auka skilning alþingismanna á ríkisfjármálum og auðvelda okkur að skoða sögulega þróun útgjalda til ýmissa málaflokka. Svo vona ég líka að í því frumvarpi verði efnisyfirlit og atriðisorðaskrá sem við höfum nú kallað eftir í mörg ár, en stundum dettur manni helst í hug að fjárlagafrumvarpið eigi að vera þannig úr garði gert að það eigi sem fæstir að geta skilið nokkuð í því. Þannig á það auðvitað ekki að vera þegar við höfum gegnsæi að leiðarljósi. Ég fagna því mjög ef úrbætur verða gerðar á frumvarpinu til framtíðar en mótmæli harðlega (Forseti hringir.) ef það verður ekki almennilega úr garði gert.