145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um kynferðisbrotamál í samfélaginu að undanförnu og mikilvægt er að við nálgumst þá umræðu af yfirvegun og reynum að leita leiða til að gera ástandið í samfélaginu betra.

Við höfum valið okkur það réttarkerfi að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð. Það þýðir og í grunninn er hugsunin sú að sönnunarkröfur séu ríkar og að við viljum frekar að einhverjir sem hafi framið brot, einhver misbrestur verður, gangi lausir en að saklausir menn lendi í því að þurfa að afplána refsingu í fangelsi. Það eru til lönd sem velja að fara aðrar leiðir, það eru lönd sem við berum okkur ekki almennt saman við, eins og Íran og fleiri lönd. Ég tel að enginn leggi til að við leitum þangað, en það er margt sem við getum gert betur í réttarkerfinu, kerfið okkar er ekki fullkomið.

Það sem ég tel vert að huga að er að styrkja þá sem fara með rannsóknir kynferðisbrotamála, þ.e. lögregluna, styðja betur við ákæruvaldið þannig að ákæruvaldið geti sinnt betur þeim málum. Nú er sagt að ríkissaksóknari eigi að setja þessi mál í forgang en þegar málin eru 50% af öllum þeim málum sem embættið sinnir er svolítið erfitt að setja þau í forgang gagnvart öðrum málum. Það er því alveg ljóst að það sem þarf að koma til þar er aukinn mannafli.

Einnig er rétt hjá okkur að ræða þá leið sem Svíar hafa farið gagnvart símenntun dómara þegar til dæmis koma til nýir brotaflokkar eins og mansal, þá er að sjálfsögðu ljóst að eðlilegt er að vinna að símenntun. Við þurfum einnig að skoða þær hugmyndir sem uppi eru á borðum í Noregi og framkvæmdar eru þar, að réttargæslumenn brotaþola komi meira að málum í réttarsal, þ.e. hafi sviðið að ákveðnu leyti. Einnig þurfum við að hafa opinn hug gagnvart öðrum leiðum, þ.e. að brotaþolar geti farið (Forseti hringir.) í einkamál, og eins að við ræðum það hvort við ætlum að fara inn í leiðina um uppbyggilega réttvísi eins og gert er í Danmörku og Noregi.


Efnisorð er vísa í ræðuna