145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég get tekið undir ansi margt sem hæstv. ráðherra sagði í sinni seinni ræðu. Ég vil líka gera þá játningu að ég gat ekki hlustað á fyrri ræðu út af löngu ákveðnum fundi úti í bæ í hádeginu og hef því ekki getað fylgst með þeirri umræðu sem hér fór fram, ég fer kannski í ræðu á eftir.

Hæstv. ráðherra kemur með endurflutt mál frá síðasta þingi, sem ekki varð útrætt þá, sem ég held að sé eitt af þeim sjö frumvörpum sem boðuð hafa verið og það sé svona það ódýrasta fyrir ríkissjóð, enda kemur fram í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ekki sé gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég held að það sé þess vegna sem ráðherra kemur með frumvarpið fram núna rétt fyrir jól sem eitt af þeim sjö frumvörpum.

Hæstv. ráðherra ræddi um ýmislegt annað sem virðist enn þá vera í vinnslu og þurfi að koma. En ég held að þrátt fyrir ágæti þessa frumvarps sem tekur á ákveðnum þáttum séu það hin frumvörpin sem enn er verið að vinna með sem fólk bíður eftir fyrst og fremst. Það eru þau sem munu hjálpa mest til. En mér fannst hæstv. ráðherra fara ágætlega í gegnum þetta, meðal annars tillögur okkar í Samfylkingunni um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Hún ræddi í lokin um þá sanngirni að við reyndum að nálgast hlutina. Það er alveg rétt. En það má bara ekki taka svona langan tíma því að okkur liggur á.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Þetta er fyrsta frumvarpið af sjö, hvenær koma hin frumvörpin? Hvenær koma þau frumvörp sem við bíðum hvað mest eftir? (Forseti hringir.) Og aðilar, ungt fólk og aðrir sem eru í húsnæðiskaupahugleiðingum og öðru og vantar húsnæði bíða hvað mest eftir?