145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég kannast ekki alveg við þessa tölu sjö sem hv. þingmaður nefnir. En hins vegar var ég með á þingmálaskránni hjá mér fimm frumvörp sem sneru að húsnæðismálum. Fjögur af þeim eru mál sem við höfum verið að vinna að í miklu og góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Hér er það fyrsta af þeim frumvörpum. Ég hef eilitlar áhyggjur af því sem hefur komið fram í umræðunni frá stjórnarandstöðunni um málið. Þetta mál er mjög mikilvægt. Það er rétt sem kemur fram að það er ekki beinn kostnaður fyrir ríkissjóð sem tengist þessu máli. En þetta mun gera félögum sem eru núna með stór áform kleift að fara með þau áfram, ljúka fjármögnun þeirra og byrja að byggja og tryggja þannig fjölskyldum þak yfir höfuðið. Ég bið þingheim um að hafa í huga að mikilvægt er að þessu máli verði lokið hratt og vel, en ég hef hins vegar líka fullan skilning á því að þingið þarf að taka þann tíma sem það þarf.

Talan getur tengst því að við samþykktum og skuldbundum okkur í ríkisstjórninni í vor að fara í mjög víðtækar aðgerðir sem sneru að húsnæðismálum. Með mörgum af þeim aðgerðum má finna samhljóm í tillögum stjórnarandstöðunnar. Þegar þau frumvörp koma inn í þingið, sem eiga eftir að koma, verður líka unnið vel í þeim eins og venjan er hér. Ég veit að þegar eru komnar inn tillögur um fjárveitingar, tillögur varðandi breytingar sem snúa að annarri umræðu sem endurspeglar það að við erum hætt að veita 3,5% lán sem við höfum verið að veita hjá Íbúðalánasjóði, það snýr einnig að breytingum á fjármagnstekjuskattinum, breytingum á húsnæðisbótunum eða opinberum stuðningi við leigjendur og eins og ég nefndi, hluti af yfirlýsingu okkar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins var sérstök löggjöf um fasteignalán. Þessi frumvörp hafa því verið lengi í vinnslu hjá okkur (Forseti hringir.) vegna þess að þetta eru stór mál. Þetta eru gífurlega stór mál, miklir fjármunir og ef við gerum mistök eins og við höfum séð í þessum stóru málum kostar það mikið.