145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:31]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu sem mér finnst mjög mikilvæg. Það eru fá mál sem ég hafði jafn mikla óbeit á þegar ég starfaði sem varaformaður velferðarráðs Reykjavíkur og einmitt þessi smálánastarfsemi. Þar komu þau oft inn á borð, sérstaklega varðandi heimildargreiðslur sveitarfélaganna við að reyna að greiða úr vanda oft og tíðum ungs fólks í fjölþættum vanda sem við ræddum einmitt hér áðan, fíknivanda og öðru. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. innanríkisráðherra að skoða hversu stórt hlutfall af einhvers konar afskriftum eða öðru fer í gegnum sveitarfélögin. Þau eru oft að greiða niður þessar skuldir.