145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Innilega til hamingju með daginn.

Mig langar að gera að umtalsefni verklag í kringum stjórnarskrárbreytingar. Stjórnarskrárnefnd hefur nú verið að störfum um nokkra hríð. Ef maður horfir á klukkuna og dagatalið er alveg ljóst að nefndin nær ekki að skila af sér þannig að hægt verði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningunum. Í ljósi þess finnst mér eðlilegt að störf nefndarinnar verði opnuð. Mér finnst fullkomlega óeðlilegt að nefnd sem er að fjalla um stjórnarskrárbreytingar fyrir alla þjóðina starfi á þann veg að ekki sé ljóst nákvæmlega hvaða breytingar hún er að gera. Það er ekkert aðgengi almennings eins og var hjá stjórnlagaráði og það er ekkert aðgengi þingmanna að tillögunum á þann veg að við getum deilt því sem er verið að vinna í nefndinni með sérfræðingum okkar.

Því langar mig til að bera það undir aðra þingmenn hvort þeim finnist ekki tilefni til að við séum betur meðvituð um hvað nefndin er að gera. Það vantar líka allar upplýsingar um hvort nefndin eigi að kalla almenning til samráðs áður en hún skilar af sér. Er það eðlilegur vettvangur ef þetta er allt gert á bak við tjöldin? Er eðlilegri vettvangur að nefndin skili af sér beint til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Hver er hinn eðlilegi farvegur svo nefndin klári störf sín? Er einhlítt að þessi nefnd muni skila af sér þannig að 40% þröskuldur og heimild til stjórnarskrárbreytinga verði nýtt á þessu tímabili? Er eðlilegt að það sé gert (Forseti hringir.) án þess að það sé staðið við að það sé gert samhliða forsetakosningum?


Efnisorð er vísa í ræðuna