145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

fasteignalán til neytenda.

383. mál
[18:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti það í fyrri ræðu minni í andsvari að það væri á margan hátt æskilegt að draga mjög úr eða losna alfarið við 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulánin. Meginástæðan er sú að eignamyndunin samkvæmt því lánaformi er svo gríðarlega hæg, hún er í raun og veru engin framan af lánstímanum. Það er rétt sem spurt er um að þau mál, að þrengja að þessu lánaformi, Íslandslánunum, hefur verið til skoðunar í ráðuneyti mínu. Þau gögn sem við erum núna að viða að okkur og ég hef ekki enn fengið til skoðunar snúast sem sagt að því hvaða áhrif það mundi hafa við núverandi aðstæður að skrúfa fyrir þessi 40 ára jafngreiðslulán. Það höfum við reynt að gera með því að fá samanburð og spyrja hreinlega hversu margir af þeim sem tóku slík lán hefðu staðist greiðslumat af 25 ára láni. Ef við sjáum mjög neikvæða niðurstöðu úr þeirri skoðun þá er það stór ákvörðun að taka núna, (Forseti hringir.) að banna 40 ára lánin við þær aðstæður sem í dag eru uppi, þar sem fáum finnst þeir eiga möguleika á að koma inn á húsnæðismarkaðinn.