145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í samfélaginu hefur verið mikil umræða um kjör aldraðra og öryrkja. Það hefur verið gagnrýnt harkalega að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki beita sér fyrir því að bætur aldraðra og öryrkja hækki frá 1. maí eins og laun þeirra lægst launuðu, eins og samið var um í samningum á almennum markaði síðastliðið vor. Lægstu laun samkvæmt þeim samningum hækkuðu frá 1. maí um 10,9%. Krafan hefur verið að kjör eldri borgara og öryrkja fylgi þeirri hækkun frá 1. maí.

Þá hefði þurft að koma breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar í þá veru og ef gera á þessar hækkanir aftur í tímann, frá 1. maí, kostar það 6.575 milljarða en afgangurinn og heildarjöfnuðurinn fyrir árið 2015 er rúmir 20 milljarðar samkvæmt fjáraukalögum. Það er því sannarlega borð fyrir báru til að bregðast við þessari kröfu.

Í ársskýrslu Tryggingastofnunar er ágæt mynd sem sýnir mjög vel bætur almannatrygginga samanborið við lágmarkslaun. Árið 2014 var hlutfallið rétt um 100% og bæturnar 1,6% ofar. Ársskýrsla Tryggingastofnunar fyrir árið 2015 mun náttúrlega sýna þessa hópa langt undir lágmarkslaunum og jafnframt hvernig kjör þeirra skreppa saman við þá ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar um að greiða ekki bæturnar aftur í tímann.

Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar hvort henni hefði ekki fundist betra og sanngjarnara að koma með breytingartillögu (Forseti hringir.) í þá veru.