145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrst að því sem er jákvætt í þessu frumvarpi til fjáraukalaga sem nú er lagt fram. Sem betur fer höfum við séð ýmis batamerki í íslensku þjóðfélagi síðustu ár þar sem tekjur ríkissjóðs eru að aukast, eitthvað af þeim er sett út til gjalda en að mínu mati ekki nóg og stórir og mikilvægir málaflokkar eru skildir út undan. Ég sagði: Það er hið jákvæða, viðsnúningurinn sem hefur orðið í íslensku þjóðfélagi síðustu tvö ár. Ætli þetta séu ekki önnur fjárlögin sem eru afgreidd með afgangi? Við skulum hafa í huga, þó svo að forsætisráðherra sé dálítið duglegur við að eigna sér og sinni ríkisstjórn þetta allt saman, það verkefni síðustu ríkisstjórnar að forða landinu frá gjaldþroti og því miður þurfti að skera ýmislegt niður og draga saman seglin sem kom niður á ýmsum. En það er að verða viðsnúningur. Þess vegna segi ég að sá árangur er sambland af tveimur, þremur síðustu ríkisstjórnum sem hafa verið og sérstaklega á síðasta kjörtímabili þar sem gengið var í að koma ríkissjóði á lappirnar aftur ef svo má að orði komast. Ekki gengur að reka ríkissjóð í mörg ár með halla.

Við skulum hafa í huga að þegar síðasta ríkisstjórn tók við leit út fyrir fjárlög með allt að 220 milljarða króna halla. Þannig að það er eðlilegt að ýmislegt hafi tekið í. Síðustu ríkisstjórn var refsað herfilega meðal annars fyrir niðurskurð og ýmislegt svoleiðis. Þess vegna var alltaf skýrt í okkar huga að um leið og ástandið færi að skána í þjóðfélaginu sem við vorum alltaf viss um að mundi gerast, við mundum rétta úr kútnum og snúa vörn í sókn, þá ætti að skila því til baka sem tekið hafði verið. Það verður að segjast eins og er að það kemur einhvers staðar fram í nefndaráliti meiri hlutans, þar er í tveimur, þremur línum minnst á þetta atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni og sagt að það hafi þurft að gera ýmislegt.

Það sem ég ætla að gera fyrst að umtalsefni er að ég sakna þess hve fáir úr meiri hlutanum eru hér fyrir utan þá tvo sem eru í salnum núna úr fjárlaganefnd. Við svona umræðu …(Gripið fram í.) Já, ég fagna því að tveir þingmenn Framsóknarflokksins sem eiga sæti í fjárlaganefnd eru hér og hlusta á mál mitt. Ég vona að þeir svari þeim spurningum sem ég mun leggja fram sem eru athugasemdir mínar við frumvarpið, ég vona að þeim verði þá svarað því af ýmsu er að taka. Ég ætla að byrja fyrst á því, sem ég skil ekki enn þá, hvers vegna ríkisstjórn er í þessari afneitun, þessari heimsku í raun og veru, eða hvort þetta er meinbægni eða bara eitthvert slugs. Hér erum við með fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2015 sem gerir ráð fyrir 21–22 milljörðum í afgang og ég spái að hann verði 30–32 milljarðar þegar upp verður staðið með ríkisreikning fyrir 2015. Hvort sem það er viljandi gert eða óviljandi tel ég að enn séu duldar tekjur í kerfinu sem ekki eru settar fram. Það kann að vera að þær séu ekki settar fram því annars komi fram meiri pressa á að eyða einhverju af því.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni fyrst er það sem ég hef margrætt á Alþingi undanfarna daga og vikur, þ.e. launahækkun til aldraðra og öryrkja. Ef við miðum við kjarasamninga þá eru þeir allir afturvirkir, margir til 1. maí, en úrskurður kjararáðs sem tók mið af Bandalagi háskólamanna og fleirum er með afturvirkni til 1. mars en almenni markaðurinn allur með afturvirkni til 1. maí. Hvers vegna í ósköpunum er ekki sett í tillögur meiri hlutans að aldraðir og öryrkjar skuli fá þær hækkanir sem þeir eiga sannarlega að fá miðað við lög, afturvirkt eins og gerst hefur á markaðnum? Hvað segir hv. þm. Vigdís Hauksdóttir? Hvernig rökstyður hún það að þetta er ekki gert? Ég kann svörin um síðustu ríkisstjórn og Icesave og kröfuhafana og allt það, (Gripið fram í.) ég kann það allt saman og hef oft hlustað á hv. þingmann um það og bið um önnur svör en þau. En ég bara spyr þessarar einföldu spurningar: Hvernig rökstyður hv. þingmaður það fyrir hönd meiri hlutans í nefndinni að þetta skuli ekki vera gert? Aldraðir og öryrkjar eru með minnstu tekjur í þessu þjóðfélagi samkvæmt öllum skrám og töluverðar skerðingar ef einhverjar tekjur koma inn annars staðar frá eins og frá lífeyrissjóðum eða fjármagnstekjur eða annað. Af hverju er þeim ekki bætt afturvirkt eins og öllum öðrum í þjóðfélaginu?

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi það að Alþingi er kjararáð aldraðra og öryrkja. Vel að orði komist. Í raun og veru er formaður þessa kjararáðs hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann er með meðreiðarsveina sem meðal annars eru í fjárlaganefnd eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og Páll Jóhann Pálsson sem hér eru. Þess vegna spyr ég, því ég hef ekki enn fengið neinn rökstuðning fyrir því: Af hverju er þetta ekki gert?

Þetta á auðvitað að gera. Þess vegna er það mikið fagnaðarefni að minni hlutinn leggur fram breytingartillögu um 6 milljarða kr. útgjöld að auki. Alveg hárrétt og eðlilegt miðað við hækkun samninga. Ríkissjóður gerir ráð fyrir miklum útgjöldum út af kjarasamningum, það er bara eðlilegt. En af hverju er þetta ekki gert? Það er minni hlutinn sem flytur breytingartillögu um að bæta þetta afturvirkt. Hún setur inn fjárhagsheimildir í breytingartillögu sína upp á 384 millj. kr. til heimilisuppbótar og 287 millj. kr. vegna sérstakrar uppbótar lífeyrisþega. Samtalan er því 671 millj. kr. sem yrði greitt úr ríkissjóði. Þetta eru bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Síðan leggur minni hlutinn líka til breytingar á lífeyristryggingum í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2015 þar sem, nota bene, og enn skal ítrekað, gert er ráð fyrir 22 milljarða kr. afgangi. Gerð er tillaga um að ellilífeyrir hækki um 860 millj. kr., örorkulífeyrir um 490 millj. kr., aldurstengd örorkuuppbót um 221 millj. kr. og tekjutrygging ellilífeyrisþega 2,7 milljarða og tekjutrygging örorkulífeyrisþega 1.633 milljónir eða samtals greitt úr ríkissjóði 5,9 milljarðar kr.

Ég veit ekki hvað 6 milljarðar gera í útgjöldum ríkissjóðs vegna launahækkunar ríkisstarfsmanna eða þeirra sem nutu úrskurðar kjararáðs samkvæmt lögum, hver talan er á þessu ári. Ég hef hvergi séð þá tölu eina setta fram. En þetta eru ekki miklir peningar í raun og veru í samhengi við gerð kjarasamninga og leiðréttinga sem byggðust á því að hækka lægstu laun upp í 300 þús. kr. á tveimur eða þremur árum. Að mínu mati á það að sjálfsögðu að fylgja líka fyrir aldraða og öryrkja. Þetta er eitt okkar brýnasta verkefni. Að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja og láta þá ekki sitja eftir eina með þau lúsarlaun sem við skömmtum þeim í gegnum þetta kerfi. Ég spyr aftur og hvet hv. formann fjárlaganefndar Vigdísi Hauksdóttur til að koma og reyna að útskýra fyrir okkur af hverju þetta er ekki gert. Og ég tek eftir því að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson biður um andsvar við ræðu mína og vænti ég þess að hann svari þessu atriði.

Við ætlum að þiggja afturvirkar launabætur samkvæmt kjararáði og kjararáð Alþingis gagnvart öldruðum og öryrkjum á auðvitað að úrskurða eins. Ég vil ekki trúa öðru, virðulegi forseti, en að meiri hlutinn sjái að sér og samþykki annaðhvort tillögu okkar eða skapi þverpólitíska sátt um þetta atriði, ræði sig til niðurstöðu eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lýsti svo ágætlega vinnu fjárlaganefndar við frumvarp um opinber fjármál sem var næstum alger samstaða um. Af hverju reynum við ekki að ná því líka fram fyrir aldraða og öryrkja? Þeir eiga sannarlega þennan rétt líka.

Ég ætla í seinni hluta ræðu minnar að ræða nokkur önnur atriði. Hér er til dæmis fjallað um arðgreiðslur. Því er lýst, sem ég held að ég hafi örugglega sagt fyrir ári síðan í ræðu, að arðgreiðslur í fjárlögum fyrir árið 2015 voru vanáætlaðar. Hér kemur á daginn að þetta var rétt og hér er bætt í og arðgreiðslur hækka nú heldur betur, t.d. frá Landsbankanum upp í 25,6 milljarða í staðinn fyrir þá 6 sem var áætlað. Ég spyr mig að því hvort þetta sé viljandi gert, hvort þetta sé aðferð ríkisstjórnarinnar til að halda aftur af þingmönnum við að krefjast þess að fá peninga í hin og þessi brýn verkefni sem við skuldum að skila til baka eftir niðurskurð erfiðleikaára okkar eftir bankahrun og sögðum alltaf að yrðu leiðrétt. Ég held með öðrum orðum að arðgreiðslur eigi eftir að hækka. Það er spá mín fyrir þetta ár og næsta ár líka.

Þá ætla ég að gera að umtalsefni það sem meiri hlutinn hældi sér af við fjárlagagerð fyrir 2015 þegar hann krafðist 700 millj. kr. arðgreiðslu frá Isavia til þess að nota til framkvæmda á flugvöllum víða um landið. Þetta var göfugt og gott markmið. Ég held meira að segja að ég hafi stutt það í atkvæðagreiðslu. Síðan gerist það að fjármálaráðherra tekur fram fyrir hendurnar á fjárlaganefnd og segir: Þetta er ekki hægt vegna þess að lánshæfismat Isavia versnar við það og Isavia þarf að standa í stórum og miklum framkvæmdum suður í Keflavík vegna stóraukins fjölda ferðamanna sem koma til landsins. Þá spyr ég: Hvernig er farið með þau útgjöld sem hafa skapast á þessu ári við framkvæmdir sem byrjuðu og arðgreiðslan fer út? Það kann að vera að einhvers staðar í frumvarpinu séu greiðslur fyrir þeim útgjöldum en ég hef ekki séð þær.

Þá geri ég að sjálfsögðu samgöngur að umtalsefni, Vegagerðina. Hér er lítils háttar bætt í hvað samgöngur varðar og þá sérstaklega til vetrarþjónustu en kostnaður vegna hennar hefur aukist á undanförnum árum og mun áfram aukast. Það er meðal annars út af breyttu veðurfari. Það hafa verið meiri umhleypingar, meiri svellalög eða ísing og það er dýrt að viðhalda vegakerfinu hvað þetta varðar. Síðan hefur líka bæst við kostnaður út af mikilli umferð ferðamanna um landið sem skapa geysilegar tekjur til ríkissjóðs en þess sér ekki stað í fjárveitingum til Vegagerðarinnar.

Samgönguáætlun sem lögð var fram síðastliðið vor dagaði uppi í þinginu vegna þess að það var samgönguáætlun um ekki neitt. Ég sagði í ræðustól og skal segja það einu sinni enn: Sú samgönguáætlun var Íslandsmet í að gera ekki neitt. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var Íslandsmet slegið í framkvæmdum á mestu erfiðleikaárum sem þá voru fjárhagslega, það var aldrei eins mikið framkvæmt og á þeim árum. Núna í góðærinu er skorið niður. Þegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar tók sig til og bætti í samgönguáætlunina í nefndarvinnunni, skiljanlega, þetta var ekki neitt, og það afgreitt út úr nefnd, hvað gerðist þá? Hvað sögðu stjórnarherrarnir við þessum auknu útgjöldum? Nei, takk. Þetta verður ekki samþykkt. Og samgönguáætlun dagaði uppi. Hún var ekki keyrð í gegn. Það er enn þá engin samgönguáætlun til. Hún er ekki enn komin fram.

Síðan gerist það að í drögum að samgönguáætlun um ekki neitt kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 að það á að skera meira niður. Sú breyting sem gerð er af hálfu meiri hlutans á framlögum til Vegagerðarinnar er ekki neitt neitt. Ég spyr hv. þm. Pál Jóhann Pálsson um þessi atriði. Ég spyr hvers vegna í ósköpunum tækifærið var ekki notað sem Vegagerðin benti á í febrúar á þessu ári að það væri möguleiki að flýta opnun Norðfjarðarganga um heilan vetur og opna þau 1. desember 2016 í stað sumars eða hausts 2017 og sleppa við að fara um hið erfiða Oddsskarð að vetri til. Vegagerðin vakti athygli á þessu í febrúar. Innanríkisráðuneytið skrifar fjármálaráðuneytinu í júní en ekkert var gert þar til tíminn var farinn fram hjá okkur og tækifærið ekki notað.

Ég veit af hverju það gerðist. Málinu var ekki fylgt eftir. Þar að auki eru fjárlög þannig gagnvart samgönguáætlun sem meiri hlutinn hefur þó samþykkt að ekki fylgdi saman fjárveiting til verksins og verkhraði. Með öðrum orðum: Ríkisstjórn rekur samgönguframkvæmdir þannig, þær litlu sem eru í gangi og við skulum hafa í huga að það eru allt samgönguframkvæmdir sem hófust í tíð síðustu ríkisstjórnar, að undirfjármagna þær. Verktakinn við Norðfjarðargöng hefur þurft að lána ríkissjóði stórar upphæðir seinni hluta áranna sem framkvæmdir hafa staðið yfir. Heyr á endemi, hvílík framkvæmd.

Mig langar að spyrja út í það, ef hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sem oft talar um samgöngumál mundi svara því ásamt því sem ég spurði um áðan, um arðgreiðslur til Isavia, af hverju hér sést hvergi 75 millj. kr. framlag sem óskað hefur verið eftir frá Fjarðabyggð til að fjármagna helminginn af uppbyggingu vallarins í Neskaupstað sem er í raun og veru sjúkraflugvöllur gagnvart sjúkrahúsinu. Bæjarsjóður þar og fyrirtæki í Fjarðabyggð hafa boðist til að borga helminginn af framkvæmdinni og eru með 75 milljónir klárar til að gera það. Nei. Það gengur ekkert hjá forsvarsmönnum Fjarðabyggðar, sama hvort eru sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn, að tala við þingmenn meiri hlutans til að fá þetta inn. Ætla menn þá að sleppa þessu tækifæri? Bráðnauðsynleg framkvæmd verði ekki gerð af ríkissjóði fyrir í raun hálfvirði?

Ég vil nefna annað mál, því við erum að tala um samgöngur, sem er fjarskipti og ljósleiðaravæðingu landsins. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson sat í nefnd um það ásamt hv. þm. Haraldi Benediktssyni sem líka situr í fjárlaganefnd. Veittar voru í ljósleiðaravæðingu 300 millj. kr. á ári. Hér er ekkert um aukningu. Það er áætlað að ljósleiðaravæðingin kosti 6 milljarða kr. Miðað við áætlun ríkisstjórnarinnar mun það taka 20 ár. Hvernig á að gera þetta? Þar að auki eru þessi skilaboð og áætlun farin að vinna gegn ljósleiðaravæðingu landsins. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn heykist á því að bjóða upp á að gera samninga við sveitarfélög um að þau sem eru með peninga til og vilja fara í þetta strax fái greiðslur til baka þegar fram líða stundir með þátttöku ríkissjóðs eins og ríkissjóður ætlar að gera og boðar í fjarskiptaáætlun. Ég get nefnt dæmi. Í Þingeyjarsveit á að leggja 300 kílómetra ljósleiðara sem kostar 300 millj. kr. Sama upphæð og ríkisstjórnin hælir sér af að lögð verði til fjarskiptamála á þessu ári. Það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ekki léð máls á því sem ég talaði um, samningum við sveitarfélögin, gerir að verkum að sveitarfélagið mun sennilega fresta framkvæmdinni. Það vill eðlilega ekki leggja út 300 millj. kr. og kasta frá sér að fá 150–200 til baka þegar peningur verður til. Þarna er áætlunin farin að vinna gegn markmiðinu.

Ef ég fer frá vegagerð yfir í aðra þætti eins og barnabætur, vaxtabætur og Fæðingarorlofssjóð, þá má sjá að vaxtabætur eru skornar niður og menn segja að það sé vegna þess að skuldaleiðréttingin hafi tekist svo vel. Nei, það er ekki þess vegna. Það er sem betur fer vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað. Það er farið að jafnast á milli og kominn plús hjá æðimörgum. Það er það sem er að gerast. Vaxtabætur hafa ekki haldið í við það sem er eðlilegt framlag ríkissjóðs til að koma til móts við unga kaupendur á fyrstu íbúð. Það er ekki gert og þess vegna hafa vaxtabætur skerst. Og hvar er Fæðingarorlofssjóður? Ekkert svar. Sama má segja um heilbrigðisþjónustuna. Hér hefur mikið verið til umræðu undanfarið heimsókn forsvarsmanna Landspítalans til fjárlaganefndar. Við sem sitjum ekki í nefndinni höfum heyrt í fréttum hvernig tekið var á móti þeim sem þangað komu. Ég verð að segja eins og er að ég skammast mín fyrir hönd Alþingis miðað við hvernig það var fram sett og hvernig sá fundur var. Það er rangt sem stjórnarmeirihlutinn segir að verið sé að auka framlög svo mikið og aldrei áður hafi farið eins mikið til heilbrigðismála og núna. (Forseti hringir.) Það er einfaldlega rangt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda á því að segja: Já, sem betur fer er margt jákvætt að gerast í þjóðfélaginu sem við sjáum endurspeglast í fjáraukatillögum. (Forseti hringir.) Hið neikvæða er að meiri hlutinn lokar augunum fyrir nokkrum brýnum málum og þá nefni ég aftur málefni aldraðra og öryrkja. Og hafi hann skömm fyrir.