145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Nýlega kom út skýrsla Samkeppniseftirlitsins um markaðsrannsókn eftirlitsins á eldsneytismarkaði, svokölluð frummatsskýrsla. Í þeirri skýrslu var vikið nokkrum orðum að lögum sem samþykkt voru hér á Alþingi árið 2013, lögum nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti. Þessi lög þvinga söluaðila eldsneytis til að blanda rándýru lífeldsneyti svokölluðu sem er etanól og lífolía sem búið er til úr hveiti, maís og öðrum matvælum í dísilolíu og bensín. Það er alveg óvíst um umhverfislegan ávinning af þeirri íblöndun en það liggur fyrir að löggjöfin hefur kostað heimilin í landinu milljarða frá því að þau voru samþykkt.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segir á bls. 274 að þessi regla, með leyfi forseta,

„… geta hins vegar takmarkað samkeppni eða virkað sem aðgangshindrun fyrir nýja aðila. Fyrir hendi eru því vísbendingar um að lögin stuðli að því að skekkja samkeppnisumhverfi og feli jafnframt í sér aðgangshindrun fyrir nýja aðila sem hyggjast bjóða einfaldara vöruframboð. Í því sambandi skal árétta aftur mikilvægi þess að framkvæmt sé svokallað samkeppnismat samkvæmt áliti nr. 2/2009. Þrátt fyrir að um hafi verið að ræða innleiðingu Evrópusambandslöggjafar gegnum EES-samninginn þá hefur íslenska ríkið ákveðið svigrúm í þessum efnum, þ.e. hvernig verði náð heildarmarkmiðum Evrópusambandsins um að 20% af orku almennt verði af endurnýjanlegum uppruna …“

Við upphaf þessa haustþings lögðum við hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Willum Þór Þórsson fram frumvarp á Alþingi sem afléttir kvöðum sölu endurnýjanlegs eldsneytis til ársins 2020. Tímann til 2020 viljum við nota til að sækja varanlega undanþágu frá þessari tilskipun Evrópusambandsins á borð við þá sem Liechtenstein hefur nú þegar fengið.

Ég vænti þess að forseti beiti sér sérstaklega fyrir því að frumvarpið komi til umræðu strax að loknu jólafríi og að Alþingi taki höndum saman um að ryðja burt þeirri samkeppnishindrun sem þessi löggjöf sem þingið sjálft setti árið 2013.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna