145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:32]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega tilvísun mín til þess að við getum ekki notað sömu krónurnar tvisvar. Þegar er stór skafl að komast yfir, sem eru verulegar hækkanir vegna kjarasamninga, þá getum við ekki notað þá peninga í samgönguframkvæmdir. Hv. þingmaður spyr um hvaða leiðir ég sé að tala í samgöngukerfinu og ég skal líka vera algerlega skýr: Ég sé einfaldlega fyrir mér að það sé mjög auðvelt og athugunarinnar virði að taka til dæmis fyrirtækið Spöl eða þá hugmyndafræði sem byggði Hvalfjarðargöngin og hefur rekið þau til þessa tíma og útfæra þá aðferðafræði til dæmis til að breikka Vesturlandsveginn og byggja Sundabraut. Ég er hins vegar bara að slá undir það og segi: Það getur ekki gengið að taka veggjöld af einum legg til eða frá höfuðborginni. Við verðum að taka þá í það minnsta af hinum tveimur aðalleiðunum til viðbótar ef við færum þá leið og um það mundi myndast samstaða.