145. löggjafarþing — 50. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir þessa spurningu því að síðustu fréttir sem við höfum af áformum forseta um framvindu fundarins er að enn sé töluvert í miðnætti. Nú er hún fimm mínútur gengin í eitt og það væri hressandi að fá að vita hvað forseti hefur að segja okkur um áformin núna.

Samkvæmt þingsköpum er tvöfaldur ræðutími í 2. umr. um fjárlög og þess vegna tekur venjuleg ræða 40 mínútur og með andsvörum eins og þeim sem hafa verið viðhöfð er hver ræða nánast klukkutími. Þegar hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur hér sína ræðu má hún vænta þess að þeirri ræðu með andsvörum ljúki á öðrum tímanum í nótt. Hún á að stýra fundi í allsherjar- og menntamálanefnd kl. 8.30 í fyrramálið, mun örugglega gera það vel, (Forseti hringir.) en ég spyr hvað forseti hugsar sér með áframhaldið hér. Það er óþægilegt fyrir alla að vita ekki um áformin og ég held að það væri ágætissiður að svara spurningum þegar þær eru bornar upp.