145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Án þess að ég hafi beinlínis gert sérlega greinargerð um það eða tekið það heildstætt saman í huga mér hvernig þetta frumvarp og breytingartillögur núna snúa að byggðamálunum þá rekur maður auðvitað strax augun í ákveðna hluti. Ég sagði í ræðunni áðan að það væri vissulega einstöku ljós í mykrinu, það loga smátírur. Það er í sjálfu sér jákvætt að aðeins sé aukið við fjármunina í Fjarskiptasjóð en það er allt of lítið, þetta mun ganga mjög hægt, því miður, en það er verið að sýna lit þar. En svo komum við að öðrum þáttum eins og vegamálunum þar sem ég skil ekki hvernig menn ætla að láta þetta ganga upp og það mun væntanlega ekki ganga upp. Ætli niðurstaðan verði ekki sú að ríkisstjórnin hrekist til þess að setja peninga í vegamálin í viðbót í fjáraukalögum næsta árs, rétt eins og hún er að gera í þessum. Ég held að þetta sé ekki hægt svona. Ég held hún komist aldrei upp með það. Þá er þetta orðið að svoleiðis vinnubrögðum að það er engin samgönguáætlun í gildi ár eftir ár, fjárlögunum er lokað með algjörlega óraunhæfum tölum, meira að segja i lið eins og vetrarþjónustu og viðhaldi og menn neyðast svo til að horfast í augu við veruleikann þegar kemur inn á fjárlagaárið og sulla þá milljörðum inn á fjáraukalög. Er þetta eins og menn vilja hafa það? Það virðist vera því að þetta gerir ríkisstjórnin á hverju sviðinu á fætur öðru, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða o.s.frv.

Ég hef mestar áhyggjur af vegamálunum, svo ég segi alveg eins og er. Ég tel að það sé það svið þar sem við erum að gera okkur langmest tjón, skapa okkur mest tjón til framtíðar litið, vegna þess að vegakerfið er að skemmast, það er að brotna niður. Burðurinn er að hverfa úr vegunum á stórum svæðum og þá verður svo gríðarlega dýrt að endurbyggja þá. Næstverst held ég að frammistaðan sé í sóknaráætlunum. Það hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum á svæðunum að því verkefni skyldi vera svo gott sem stútað, af því að menn bundu orðið miklar vonir við það og voru ánægðir með það. Svona vildu menn hafa það: Já, látið okkur fá fjármunina og við skulum forgangsraða þeim.

Ég tel að til dæmis frammistaðan í málefnum litlu framhaldsskólanna sé því afar slök og það sé búið að þjarma að þeim og reyndar framhaldsskólastiginu (Forseti hringir.) almennt með því að hrekja fólk eldra en 25 ára úr námi o.s.frv., þannig að því miður í byggðarlegu tilliti þá er miklu (Forseti hringir.) fleira neikvætt en jákvætt í þessu frumvarpi.