145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:24]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég er sammála hv. þingmanni. Við vitum öll sem fylgjumst með fréttum að við stöndum á tímamótum í flóttamannamálinu. Við eins og aðrar þjóðir erum að læra hlutverkið. Það eru margir sem hafa tekið þátt í að skipuleggja móttöku fyrsta hópsins sem kemur núna. En eins og hv. þingmaður nefnir réttilega er bæði um að ræða kvótaflóttamenn, sem fá sérstaka þjónustu, og svo hælisleitendur, sem lifa í stöðugri óvissu.

Það var áhugavert að fylgjast með viðbrögðum Angelu Merkel þegar hún sagði: Komið öll fagnandi, við tökum á móti ykkur. Fólk á flótta á sér svo fáa málsvara og þetta er fallegt hugarfar. Ég held að við eigum að nálgast flóttamannavandann á þann veg að bjóða fólk velkomið frekar en að leggja stein í götu þess. Þessi gjörningur í dag er svo átakanlegur að það er með ólíkindum að íslensk lög skuli vera þannig að embættismenn geti nánast tekið geðþóttaákvörðun um hvort þessi flóttamaður fái hæli af mannúðarsjónarmiðum en ekki hinn. Það er óþægilegt.

Ég heyrði það á fundi hjá Rauða krossinum í gær — og það er gott að fá hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar sem getur kannski bætt aðeins í frásögnina — að það er verið að skoða útlendingalögin og ég treysti því. Ég hef því miður ekki haft tíma til að kynna mér þau en mér skilst að þau séu til mikilla bóta, að þau séu réttarbót. En ég held sannarlega að það sé verk að vinna fyrir okkur sem samfélag ekki bara tæknilega að taka á móti stórum hópi flóttamanna; við þurfum líka að þjálfa okkur sjálf.