145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:42]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara svo að því sé haldið til haga þá var það samflokkskona mín sem sagði að hv. þingmaður ættir að vera í okkar flokki, en það er nú önnur saga. Kjarninn í jafnaðarstefnunni er jöfnuður og samstaða. Samstaða með öllum, ekki síst þeim sem minna mega sín. Án samstöðu og án jöfnuðar verður óeining í samfélaginu. Það er það versta sem hægt er að hugsa sér, að þeir sem vilja koma hingað — og við skulum átta okkur á því að fjöldinn vill ekkert endilega koma hingað, hann kýs sér búsetu annars staðar. Ég held því að við eigum miklu frekar að líta á þá sem vilja koma hingað sem kærkomna gesti og viðbót við samfélag okkar.

Jöfnuður og samstaða er okkar mottó og mér kemur það á óvart, og það veldur mér vonbrigðum, ef verkalýðshreyfingin í landinu hefur ekki verið fús í samstarf um þetta mál. Ég mun taka það upp á vettvangi míns flokks sem hefur alltaf haft náin tengsl við verkalýðsbaráttuna og ræða þetta við þau. Það er algerlega lykilatriði að þau komi með í þessa vinnu.