145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:01]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 í 2. umr. Mjög margar ræður hafa verið haldnar hér á undan og ýmis sjónarmið viðruð þar. Ég tel nauðsynlegt að skoðanaskipti eigi sér stað og þau eru af hinu góða þó að sannarlega megi líka segja að margoft hefur hið sama verið sagt og spurning um hvort það sé áheyrilegt. En góð vísa er sjaldan of oft kveðin.

Í þessum þriðju fjárlögum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á núverandi kjörtímabili stefnir í þriðja sinn í hallalausan ríkisrekstur og er það mjög ánægjuleg staðreynd sem vert er að hampa. Enn er þó nokkuð í land með að hefja niðurgreiðslu skulda og vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru enn þriðji stærsti útgjaldaliðurinn í fjárlögum. Því er full ástæða til aðhalds í ríkisútgjöldum. Nú er það svo að tekjuaukning, sem hefur orðið hjá ríkissjóði, hefur fyrst og fremst verið notuð til að auka framlög til innviðauppbyggingar og grunnþjónustu.

Vert er að geta þess að 32 milljarðar, 32 þús. milljónir, fara á árinu 2016 til að fjármagna kjarabætur sem komu til á árinu 2015. Það eru miklir fjármunir. Því er líka mjög nauðsynlegt að nýta uppgang í atvinnulífinu og auknar ríkistekjur til að greiða niður skuldir á næstu árum. Við verðum að forgangsraða í ríkisrekstri. Það má víða hagræða, eins og margoft hefur verið bent á. Í lokafjárlögum fyrir árið 2014, sem fjárlaganefnd fékk í hendur í gær, kemur fram að ýmsar stofnanir eru að skila margra tuga og hundraða milljóna kr. afgangi. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé hvort fjárþörf þeirra sé rétt metin en þar með er ég ekki að segja að hegna eigi vel reknum ríkisstofnunum.

Fjárlaganefnd hefur lagt mikla áherslu á að stofnanir ríkisins stórauki útboð og beiti hagkvæmustu leiðum við öll innkaup. Það er afar mikilvægt að vel sé farið með fjármuni ríkisins og með útboði á verkum og innkaupum er verið að tryggja að hagkvæmasta tilboð komi fram og sé valið. Meiri hluti fjárlaganefndar vekur eindregna athygli á þróun lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs sem hækka ár frá ári. Að öllu óbreyttu verða B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga uppurin árið 2027. Það mun kalla á 20 milljarða kr. árleg útgjöld í tíu ár þaðan í frá áður en þau fara lækkandi aftur. Innan B-deildar eiga þeir sem eru á svonefndri 95 ára reglu, hafi þeir náð samanlögðum lífaldri og starfsaldri upp á 95 ár, rétt á að hefja töku lífeyris. Það þýðir að hafi viðkomandi unnið samfellt hjá ríkinu frá 25 ára aldri getur hann hafið töku lífeyris 60 ára.

Meiri hluti fjárlaganefndar bendir á uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum, svo sem í samgöngumannvirkjum. Víða um land eru enn malarvegir sem eru mikið keyrðir og þá sérstaklega á sumrin með auknum fjölda ferðamanna sem fara um Ísland. Þessir vegir skapa oft hættu og því er nauðsynlegt að huga að því að leggja á þá bundið slitlag jafnt og þétt og sem allra fyrst. Því miður hefur vegakerfið í heild víða látið á sjá og er mikil þörf á umbótum.

Hv. þm. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur borið hita og þunga af vinnu við skipulagningu umbóta í fjarskiptamálum. Hringtenging ljósleiðara um landið er gríðarlega mikið byggðamál og skiptir miklu máli fyrir alla uppbyggingu, ekki síst fyrir dreifðar byggðir landsins. Á öllum fundum landsbyggðarþingmanna með sveitarstjórnarmönnum í kjördæmaviku, og á öðrum fundum í kjördæmi eða með fjárlaganefnd, hefur komið fram eindregin ábending um mikilvægi þess að góðir og stöðugir fjarskiptamöguleikar, tenging við internetið, séu lykilatriði til að halda í unga fólkið eða ná því heim aftur til uppbyggingar atvinnulífs, mennta og menningar og blómlegs mannlífs á landsbyggðinni.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögu við tekjuáætlun frumvarpsins sem nemur 4.236,3 millj. kr. til hækkunar tekna og einnig breytingartillögu við sundurliðun 2, þ.e. fjármál ríkisaðila í A-hluta, sem nemur 8.802,7 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða heildartekjur ársins því 700.555,3 millj. kr. og gjöldin 689.835,2 millj. kr. Heildarafkoma verður því þannig að afgangur verður 10.720,1 millj. kr. sem er rúmlega 4,5 milljörðum lægra en gert var ráð fyrir í frumvarpinu við framlagningu þess í september.

Meiri hluti fjárlaganefndar telur miklar líkur á því að arðgreiðslur frá Landsbankanum verði hærri en sá 7,1 milljarður sem áætlaður er í frumvarpinu. Í ljósi reynslu liðinna ára og athugunar á milliuppgjöri bankans það sem af er árinu er líklegt að arðgreiðslur verði allnokkrum milljörðum hærri en í áætlun. Engu að síður gætir meiri hlutinn að almennum varúðarsjónarmiðum og leggur ekki til hækkun á áætlun um arðgreiðslur.

Breytingartillögur á útgjaldaliðum frumvarpsins koma til vegna ýmissa ákvarðana sem ríkisstjórn hefur tekið. Þar má nefna að 1 milljarður er ætlaður til að aðstoða hælisleitendur og flóttafólk. Tillaga er um 840 milljónir í tímabundið átak til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum í heilbrigðiskerfinu, svo sem kransæðavíkkunum, liðskiptaaðgerðum og augnsteinaaðgerðum. 280 milljónir eru veittar í rannsóknarverkefni vegna lifrarbólgu C. Einnig er lagt til 490 millj. kr. framlag til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, 400 milljónir eru til að efla almenna löggæslu, 250 milljónir fara til aðgerða í loftslagsmálum, svo að nokkuð sé nefnt af því sem finna má í breytingartillögum.

Auk þess leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að bætt verði við gjaldaheimildum í tilteknum málaflokkum. Þar má nefna 400 millj. kr. til hafnarframkvæmda víða um land, sem tilgreindar eru í nefndaráliti. Þá eru aðrar 400 millj. kr. ætlaðar til uppbyggingar á flugvöllum innan lands, meðal annars 150 milljónir til Húsavíkurflugvallar og 80 milljónir til Norðfjarðarflugvallar. Til Fjarskiptasjóðs eru veittar tímabundið 200 millj. kr. til að hraða uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða og 235 millj. kr. til Vegagerðarinnar. Þá verða 150 milljónir lagðar til rannsókna vegna fyrirhugaðra Fjarðarheiðarganga. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að framlög til Háskólans á Akureyri verði hækkuð um 40 milljónir, til Háskólans á Hólum um 25 milljónir, til Háskólans á Bifröst um 50 milljónir og til Landbúnaðarháskóla Íslands um 25 milljónir.

Hæstv. forseti. Þegar talið berst að uppbyggingu innviða koma skólar landsins eðli máls samkvæmt í minn hug. Framhaldsskólar og háskólar eru flestir ríkisreknir og hér birtist viðleitni meiri hluta fjárlaganefndar til að rétta hlut háskóla á landsbyggðinni að einhverju leyti á árinu 2016. Þetta dugar þó hvergi nærri til. Við þurfum að taka mið af því sem eðlilegt er talið í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Þegar við lítum til framhaldsskólans er staðan enn verri. Framlög til þeirra hafa um langan tíma, á annan áratug, verið mun lægri en þau þurfa og eiga að vera. Framhaldsskólinn hefur verið fjársveltur svo að framlög hans duga ekki til eðlilegrar endurnýjunar á starfsaðstöðu, tækjakosti, aðbúnaði og til ýmiss annars sem til þarf í einum framhaldsskóla í dag. Enda er það svo að þegar fjárveitingar til íslenskra framhaldsskóla eru bornar saman við fjárveitingar til framhaldsskóla í nágrannalöndum okkar kemur í ljós að Ísland vermir botninn á öllum sviðum. Aldrei var gert ráð fyrir því stóraukna fjárframlagi sem þurfti til þegar framhaldsskólinn var gerður að skóla fyrir alla sem út úr grunnskóla kæmu. Framhaldsskólinn átti að bregðast við mjög misjöfnum aðstæðum og námsgetu, félagslegum þörfum og námslegum stuðningi sem slík breyting hafði í för með sér. Enn bættist í það hlutverk þegar lögræðisaldur var hækkaður í átján ár.

Hæstv. forseti. Við erum ekki að gera miklu meira fyrir miklu minna fjármagn hér á landi í menntamálum. Það er blekking. Það þarf að veita mun meira fjármagn í menntamál ef við ætlum ekki að dragast frekar aftur úr á því sviði.