145. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki á móti því fyrirkomulagi. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á samhenginu verð ég að viðurkenna. Eðlismunur á launum og bótum, ég sé ekki alveg hvers vegna það skiptir máli hvort við köllum þetta laun eða bætur. Eftir stendur að fólk þarf þetta til þess að lifa. Það er ekkert valkvætt að nota peninga í nútímasamfélagi, alla vega ekki ef maður ætlar að lifa í samfélaginu sjálfu. Svo er hitt að ýmis laun taka breytingum árlega, laun okkar taka til dæmis breytingum um það bil árlega samkvæmt kjararáði og sömuleiðis tíðkast það mjög víða í vinnu að endurskoða laun árlega og því um líkt. Ég sé í sjálfu sér ekki eðlismun hvað það varðar, en hins vegar er eðlismunurinn auðvitað sá að öryrki getur ekki samið við neinn, hann getur ekki hætt að vera öryrki, hann getur ekki farið til annars fyrirtæki og verið öryrki þar. Hann stólar því á það að við tökum ákvarðanir meira út frá sanngirni en einföldum markaðssjónarmiðum.