145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Undanfarnar vikur og mánuði hefur heimurinn fylgst með hættulegum siglingum flóttafólks á bátskænum yfir Miðjarðarhaf í von um að geta hafið nýtt og betra líf í Evrópu. Flestir greiða aleigu sína fyrir þetta ferðalag en um þriðjungur nær aldrei að ströndum Evrópu og misindismenn græða á tá og fingri. Það var ekki fyrr en lík lítils drengs rak á fjörur Tyrklands sem heimurinn vaknaði og fór að ræða af fullri alvöru um bága stöðu flóttamanna frá Sýrlandi. Fyrir þá sem ná ströndum Evrópu tekur við langt ferðalag upp álfuna og þegar til fyrirheitna landsins er komið tekur við löng bið og óvissa um meðferð hælisumsóknar. Sú umsóknarbeiðni endar stundum með því að hælisleitendum er snúið til baka eins og við þekkjum því miður allt of vel hér á landi.

Á vettvangi Evrópuþingsins hefur sú hugmynd komið fram að Schengen-ríkin taki höndum saman og opni sameiginlegar áritunarskrifstofur í þeim ríkjum þar sem flestir flóttamenn hafast við, t.d. í Tyrklandi og Líbanon. Þar gætu flóttamenn sem vilja halda til Evrópu lagt inn hælisumsóknir og fengið þær afgreiddar í stað þess að leggja í hættulega för. Með slíkum áritunarskrifstofum væri líka hægt að uppræta ógeðslega starfsemi misindismanna sem lokka örvæntingarfulla flóttamenn út á Miðjarðarhaf.

Straumur flóttamanna til Evrópu hefur vakið upp umræðuna um Schengen-samstarfið. Sumir vilja slíta því eins og örlað hefur á hér á hinu háa Alþingi. Ég mæli hins vegar með því að Alþingi Íslendinga hafi það frekar að leiðarljósi að styrkja Schengen-samstarfið með því að styðja opnun áritunarskrifstofa í flóttamannabúðum þar sem flóttamenn geta sótt um alþjóðlega vernd og mannúðaráritun, m.a. til Íslands.


Efnisorð er vísa í ræðuna