145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Hún kom inn á brýn mál, bæði málefni aldraðra og öryrkja og Landspítalann okkar. Í ágætu nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar sem hv. þingmaður skrifaði undir kemur fram ágætisviðmið um það hvað við Íslendingar erum að setja í viðhald húsnæðis og tækjakaup til heilbrigðisgeirans. Þar er samanburður við OECD-löndin sem verja að meðaltali 0,5% af vergri landsframleiðslu í þessa liði. Það samsvarar einum 10 milljörðum kr. ár hvert en við Íslendingar höfum hins vegar varið sem svarar 0,1% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingar í innviðum í heilbrigðisþjónustu. Við erum á svipuðum stað og Grikkland og Mexíkó, við erum í næstneðsta sæti OECD-landanna.

Þessi samanburður er okkur auðvitað ekki í hag og lýsir vel hvernig við höfum greinilega dregist aftur úr áratugum saman og treyst á velvilja margra úti í þjóðfélaginu sem hafa gefið Landspítalanum dýr tæki, eins og kom fram í máli hv. þingmanns þegar hann vitnaði í grein læknis um þessi mál.

Mig langar aðeins að fá sýn þingmannsins á það hvernig við verðum markvisst að stefna metnaðarfyllra að því að ná þeim OECD-löndum (Forseti hringir.) sem greiða 0,5% af vergri landsframleiðslu í þennan málaflokk.