145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er þetta varðandi tekjuhliðina. Það er augljóst að hér er verið að breyta skattkerfinu til einföldunar til þess meðal annars að koma af stað þeim efnahagseiningum sem heimilin eru, létta byrðar heimilanna og auka kaupmáttinn og það er allt að gerast. Það eykur auðvitað hagvöxtinn og tekjur ríkissjóðs eru að aukast.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á athyglisverða ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar og ég ætla að taka undir með hv. þingmanni sem færði góð rök fyrir því að við ættum ekki að skattleggja lífeyrissparnað inn í framtíðina. En ég ætla að spyrja hv. þingmann hvað honum fannst um þær vangaveltur að nýta séreignarsparnaðinn sem tekjusveiflujöfnunartæki (Forseti hringir.) fyrir Seðlabanka Íslands og ná þannig niður háum stýrivöxtum.