145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var auðvitað þannig að með tillögum nefndar um græna hagkerfið voru fulltrúar allra flokka sem skiluðu samhljóða 50 tillögum til þingsins. Það var ekki eitthvert verkefni vondu vinstri stjórnarinnar sem hv. þingmaður er að tala um.

En ég stend við það að samanburður hv. þingmanns á framlögum, aðbúnaði og aðstæðum öryrkja og lífeyrisþega núna, eftir fimm til sex ára uppgangstíma í íslensku efnahagslífi, við árið 2009 eftir mesta hrun efnahagsins í lýðveldissögunni er fullkomlega út í hött. En ég skal sakir vináttu okkar fara út í þann samanburð engu að síður.

Á árinu 2009 voru sett sem hlutfall af vergri landsframleiðslu 7,5% í heilbrigðismál og á árinu 2014, fjórum árum síðar eftir fjögur jákvæð hagvaxtarár var hlutfallið 7%. Sá er samanburðurinn. (ÓBK: Hvernig var það 2010?) Hvernig ætlar hv. þingmaður að svara því? (ÓBK: Segðu okkur hvernig það var 2010.) Ég er alveg viss um að hv. þm. Óli Björn Kárason getur sett sig á mælendaskrá og flutt mjög gagnmerka ræðu en ég er að bera saman tvö ár og það er samanburður sem hv. þm. Óli Björn Kárason ókyrrist mjög yfir og finnst óþægilegt að heyra og fer þess vegna að gaspra fram í í þingsal, en þetta er einfaldlega svona. Þetta er fullkomlega sambærilegt. En þær aðstæður að stýra málum eftir fimm til sex ára hagvaxtarskeið eða vera búinn að missa efnahagslegt sjálfstæði og búa til fjárlög með rúmlega 100 milljarða kr. niðurskurði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru ekki sambærilegar og það er ekki sanngjarnt og það veit auðvitað hv. þingmaður.