145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka forseta hlýlegt ávarp hér í upphafi fundar að rómverskum sið sem gladdi mig sannarlega. Sú umræða sem hér hefur staðið dögum saman hefur verið mikilvæg. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði í fjölmiðlum í gær að enn væru að bætast við mikilvægar upplýsingar. Ég leyfði mér að efast um það og taldi að það stafaði af lítilli þingreynslu hv. þingmanns, en varla var ég fyrr kominn til þings eftir svolítið hlé en ég gerði þá merku uppgötvun að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hafði algjörlega rétt fyrir sér. Þegar maður opnar Morgunblaðið blasir það við að þar er verið að upplýsa um að í fjárlagafrumvarpið vanti tölur sem varða tugum milljarða, 20–30 milljarða, vegna lífeyrisskuldbindinga sem tengjast kjarasamningum. Í gær varð síðan uppi fótur og fit vegna þess að í tillögur meiri hlutans í fjárlaganefnd vantaði að ég hygg tölur upp að næstum því 1.200–1.300 milljarða sem hefðu verið vanáætlaður kostnaður vegna kjarasamninga við kennara. Enn í dag heyrum við — enn gjammar hér frammí hinn virðulegi formaður fjárlaganefndar sem ég þyrfti ef til vill að beina nokkrum orðum til líka. Við heyrum það líka á skotspónum að það vanti hugsanlega einhverja viðbót í tillögur meiri hlutans vegna þess að það sé ekki ljóst hvort búið sé að gera ráð fyrir lífeyrisskuldbindingum vegna kjarasamninga sérgreinalækna. Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvers konar vinnubrögð séu hér. Þurfum við ekki, herra forseti, með tilliti til þingsins og virðingar þingsins að velta fyrir okkur hvort ekki þurfi að taka upp ný vinnubrögð við gerð fjárlaga og starf fjárlaganefndar?

Nú hefur það komið fram áður að ég er í hópi þeirra sem líta á sig sem stuðningsmenn og unnendur hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar. Ég studdi hana mjög dyggilega til þess starfa. Ég var sömuleiðis í hópi þeirra þingmanna sem lögðu atbeina að því að reyna að koma henni í stól ráðherra. Það tókst ekki sem við sýtum bæði, ég og hv. þingmaður. Hitt verð ég að segja að vegna þess að mér er annt um hv. formann fjárlaganefndar þá finnst mér að við þurfum öll að setja okkur ákveðnar reglur. Við getum ekki leyft okkur að taka hlutunum persónulega eins og hv. þingmaður gerði í svörum við þingmönnum áðan. Hún er að bera hér fram tillögur til breytinga á því sem hægt er að segja að sé mikilvægasta frumvarpið sem kemur fram á hverju ári. Það er frumvarpið sem bókstaflega setur fótinn undir framvindu ríkisins næstu 12 mánuði. Það er líka það frumvarp sem alla jafna birtir hina pólitísku skurðlínur millum pólitískra flokka. Það er fullkomlega eðlilegt við þær aðstæður að það skelli í brýnu og snerrur verði á milli manna ef um er að ræða að það ljósti saman mismunandi hugmyndafræðilegum skoðunum. Þá má hv. þingmaður ekki gera eins og hér áðan, að koma og segja að þetta séu árásir á sig persónulega. Um það er ekki að ræða, síður en svo, alls ekki hjá þeim sem hér stendur.

Fyrst ég er farinn að tala um mannasiði og það hvernig fjárlaganefndin hefur sín störf og hvernig þau birtast hinni ytri veröld þá verð ég auðvitað að segja það líka að fjárlaganefnd er sennilega mikilvægasta þingnefnd sem við höfum yfir að ráða innan okkar vébanda. Hún er mikið í fjölmiðlum. Forustumenn hennar líka. Allir sem koma að fjármálum ríkisins og starfa með svo mikilvægri nefnd verða að gæta að því hvernig þeir koma fram. Það gengur ekki, herra forseti, að það gerist æ ofan í æ að gestir nefndarinnar þurfi bókstaflega að kvarta undan því atlæti sem þeir sæta innan nefndarinnar. Mér finnst það ekki vera hægt þegar forstjóri Landspítalans kemur í fjölmiðla og greinir frá því að hann hafi sætt árásum af hálfu forustu fjárlaganefndar. Þá segi ég: Hingað og ekki lengra. Þá verður forustan í fjárlaganefnd að fara að skoða sinn gang. Hún á ekki að skoða hann með þeim hætti að þegar slíkt gerist þá stígi hún fram og lýsi því yfir að hún sæti andlegu ofbeldi af hálfu forustumanna Landspítalans. Herra forseti, er það þá þannig að ef þeir sem hafa talað fyrir stórum og sterkum hagsmunum og gera það af krafti og af þeirri trúmennsku sem sennilega olli því að þeim var falið trúnaðarstarf þá megi þeir sæta því af hálfu eins af æðstu kjörnu embættismönnum þingsins að vera ásakaðir um andlegt ofbeldi? Verðskulda þeir að sagt sé um þá að þeir séu með væl á fundi fjárlaganefndar? Þetta tel ég að við þurfum að skoða. Í fullri vinsemd og með mikilli virðingu fyrir hv. formanni fjárlaganefndar þá beini ég því til hennar að hún skoði örlítið sinn gang og geri sér grein fyrir því að virðing hennar er um leið virðing þingsins, framkoma hennar skilgreinir um leið hvernig gestir á hennar fundi og fjárlaganefndar upplifa þingið.

Herra forseti. Hér hefur töluvert mikið verið rætt um það með hvaða hætti ríkissjóði hefur undið fram. Sá vaski þingmaður sem nú skýst út með tímaritið The Economist í höndum sér hefur kallað eftir því að menn ræði hinar stóru línur. Það finnst mér menn hafa gert í þessari umræðu. Eitt af því sem mér finnst hvað magnaðast í þessari umræðu er að margir úr liði stjórnarandstöðunnar hafa komið og rætt um hinar stærri línur þessa kjörtímabils og síðasta kjörtímabils líka. Enginn hefur gert það með jafn skýrum og skeleggum hætti og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem fór yfir það mikla starf sem síðasta ríkisstjórn vann á síðasta kjörtímabili. Hv. þingmenn, eins og Óli Björn Kárason, Willum Þór Þórsson, Karl Garðarsson, að ógleymdum hv. þingmanni og varaformanni fjárlaganefndar, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sátu þegjandi undir þeirri ræðu án þess að gera athugasemdir við lýsingu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á störfum síðustu ríkisstjórnar. Ég tel að í því felist síðbúin en mikilvæg viðurkenning á þeim mikilvægu störfum sem þá voru unnin. Staðan er líka sú að nú þarf ekki lengur um að binda. Það er ekkert hægt að deila um það í sjálfu sér. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á með ítrekuðum tilvísunum í ríkisreikninga þriggja ára að þar er allt saman klappað í steininn. Allri þeirri miklu vinnu sem unnin var til þess að koma ríkissjóði aftur í bærilegt horf er lýst þar samviskusamlega af embættismönnum. Þetta eru stóru línurnar. Rauði þráðurinn í því sem hefur verið að gerast í ríkisfjármálum síðustu sex, sjö, átta árin er sú staðreynd að fyrri ríkisstjórn tókst að stoppa upp í götin á ríkissjóði þar sem fjárlagahalli fossaði út um, tókst að tjasla honum saman, tókst að koma á laggir bankakerfi sem funkerar vel og tókst að treysta þannig grundvöll atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins, að þegar kom að ríkisstjórnarskiptum þá tók ný ríkisstjórn við kerfi sem var komið í lag. Það sem meira var, sú ríkisstjórn tók við ríkissjóði sem var um það bil að komast á núllið og var á núllinu ef óreglulegir liðir voru teknir frá. Þetta er það sem skiptir mjög miklu máli. Þetta eru stóru línurnar sem eru að birtast núna.

Ég ætla ekki að fara að hallmæla hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur gert margt mjög gott. Það er mála sannast að það viðreisnarstarf sem hefur verið unnið gagnvart íslenska hagkerfinu og íslensku efnahagslífi hefur verið unnið af fjórum ríkisstjórnum. Þær hafa allar lagt sig fram. Fyrsta ríkisstjórnin var vitaskuld sú sem var við völd þegar hrunið reið yfir, ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að á þeim tíma var gripið til ráðstafana sem voru fram undir það síðasta mikilvægustu aðgerðirnar sem samþykktar voru af hálfu þeirrar ríkisstjórnar. Það var þegar sú ríkisstjórn náði í gegnum móskuna sem þá lá yfir öllu að grilla í rétt svör og lagði hér fram frumvarp til neyðarlaga. Neyðarlögin voru grunnurinn að endurreisninni sem síðan hefur fleytt fram. Tvær ríkisstjórnir síðan, báðar undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur, greiddu sinn atbeina að því verki. Það verður að segjast alveg eins og er að síðari ríkisstjórnin, meirihlutastjórnin, vann ekkert annað en kraftaverk við það að koma Íslandi aftur á kjöl. Við þær aðstæður blasti við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði spáð hér 14% atvinnuleysi. Vegna aðgerða þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon átti mestan þátt í að koma af stað þá fór það svo að atvinnuleysið sleikti aldrei meira en 10%. Á þeim tíma spáði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því líka að hér mundi lunginn úr atvinnulífinu nánast bráðna niður í einstakar öreindir, allar gjaldþrota. Það var talað um að 7–10 þús. fyrirtæki yrðu gjaldþrota. Því tókst líka að bjarga. Það tókst að skilja erfiðu skuldirnar, vondu skuldirnar, úr bönkunum eftir og reisa nýja banka sem ganga mjög vel í dag.

Við skulum heldur ekkert gleyma því núna þegar við erum að tala um stóru línurnar, sem hv. þm. Óli Björn Kárason og Guðlaugur Þór Þórðarson kölluðu eftir, að þær fólust ekki síst í því að á ögurstundu tókst að koma í veg fyrir að samfélagið stoppaði bókstaflega. Þá lá við borð að það voru um þrjár vikur í að við ættum ekki gjaldeyri til að kaupa lyf og orku. Ég minnist eins drungalegs dags þegar ég var þá ráðherra að ég þurfti að taka upp símann og hringja á Heathrow-flugvöll til þess að koma í veg fyrir að flugvél sem var um það bil að fara af stað yrði kyrrsett vegna þess að menn voru hættir að treysta Íslendingum. Svona var staðan.

Það hefur nánast verið ævintýri líkast hvernig tekist hefur að vinna úr stöðunni. Þetta eru stóru línurnar sem hafa markað stöðu og þróun ríkisfjármála síðustu árin. Fyrri ríkisstjórn tókst að koma í hendur hinnar nýrri ríkissjóði sem var kominn í lag, kerfi sem funkeraði, bankakerfi sem skilaði sínu og atvinnuvegum þar sem „fúndamentin“ voru öll heil og átti meira að segja drjúgmikinn þátt í því að reisa á fætur nýja atvinnugrein sem í dag hefur reynst bjargvættur okkar allar, þ.e. ferðaþjónustan. Það var ekki síst vegna atbeina þeirrar ríkisstjórnar og forsjálni að lagt var í að eyða stórkostlegum peningum á þeim tíma, þegar kallað var eftir fjármunum úr öllum áttum, og setja á annað þúsund milljónir í að notfæra sér þá stöðu og ávinning af bölinu sem fólst í því að koma á framfæri þeirri staðreynd að hér var allt miklu ódýrara en áður, krónan hafði fallið um helming og fyrir vikið hófst hér ferðamannastraumur sem síðan hefur ekkert lát orðið á. Það er þessi atvinnugrein sem heldur í dag utan um gengið og þéttir svörðinn í samfélaginu og það er hún sem er líkleg til þess að veita inn í samfélagið hvorki meira né minna en 362 milljarða kr. á næsta ári.

Sú ríkisstjórn sem síðan hefur tekið við hefur gert margt mjög gott. En ég geri við hana alvarlegan pólitískan ágreining um eitt mikilvægt atriði. Það er pólitískur hlutur og ég er ekki að segja að hún hafi tæknilega staðið sig neitt illa en stjórnmálalegan ágreining geri ég við hana að því marki að hún virðist vera þeirrar skoðunar að það sé keppikefli og það sé heppilegt í núverandi stöðu að draga úr samneyslunni, að veikja tekjustofna ríkisins. Við þessar aðstæður, þegar staðan er mjög viðkvæm þó að við séum vissulega á góðum skriði, er ég þeirrar skoðunar og ég tek eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar á svipaða vegu að það hafi verið glapræði að kasta frá sér tekjumöguleikum. Það hefði miklu frekar átt að þétta tekjumöguleikana, nýta þá til hins ýtrasta eins og gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar og nota þá í tvennum tilgangi: Í fyrsta lagi til þess að bregðast við ýmsu sem enn er óunnið frá hruninu í innviðum ríkisins, ekki síst innan heilbrigðisþjónustunnar. Ég nefni nú líka einn málaflokk sem hefur algjörlega legið óbættur hjá garði þessarar ríkisstjórnar og varla er minnst á í fjárlagafrumvarpinu og alls ekki þeim meirihlutatillögum sem nú liggja fyrir. Það er menntakerfið. Hins vegar til þess að greiða niður nafnverð skulda. Annað dugar nefnilega ekki við þessar aðstæður. Landsframleiðslan er sannarlega að aukast jafnt og þétt, hér hefur verið góður hagvöxtur allar götur síðan á miðju ári 2010 og vegna þess að skuldastaðan er í „absolute“ stöðu óbreytt þá lækkar hún hlutfallslega sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Það er það sem þessir herramenn og heiðurskonur eru að hrósa sér af. Þau benda á að skuldir ríkisins séu að lækka, en þegar það er skoðað grennra kemur í ljós að svo er ekki, „absolute“-talan er hin sama. Það kemur fram víða í meirihlutaálitinu, sem við höfum fyrir okkur í dag og sömuleiðis í ríkisfjármálaáætlun sem var samþykkt hér við illan leik og gegn miklum mótmælum okkar í stjórnarandstöðunni á síðasta vori og á að ná til ársins 2018, að það er ekkert verið að hreyfa við nafnverði skulda, það er óbreytt. Þetta þýðir að við þessar aðstæður, herra forseti, erum við að skila ríkissjóði nánast með engum afgangi. Gert var ráð fyrir afgangi upp á 18 milljarða, sem er borð fyrir báru, en í meðförum meiri hluta fjárlaganefndar er búið að minnka hann um helming, hann er kominn niður í liðlega 10 milljarða. Ég verð að segja, herra forseti, að það er nánast ekki neitt hjá ríkissjóði sem hefur á tekjuhlið nánast 700 milljarða. Þá má ekkert út af bera. Við slíkar aðstæður, þegar ekkert má gerast vegna þess að það er varla borð fyrir báru, segi ég að það hefði þurft að leggjast miklu harðar á árar og reyna að treysta tekjustofna ríkisins til þess að við gætum bæði mætt þeirri þörf sem er fyrir fjárfestingu í innviðum ríkisins, ekki síst í heilbrigðisgeiranum, og greitt niður skuldir. Þetta tel ég að hafi skipt miklu máli.

Ég tel að hin stóra línan þegar maður horfir yfir þessi ár sé aðgerðaleysi núverandi ríkisstjórnar til þess að byggja til framtíðar.

Hverjir eru verstu blóðpeningar sem við Íslendingar þurfum að greiða í dag? Það eru vaxtagjöldin, gjöldin sem við þurfum að greiða vegna þeirra lána sem ríkissjóður ber. Vissulega hríðféllu skuldir ríkisins eftir að hafa farið gríðarlega hátt upp í hruninu sjálfu þegar froðan skyndilega þornaði og gufaði upp eins og dögg fyrir sólu og eftir lágu óburðugir, ónýtir tekjustofnar. Vitaskuld leiddi það til þess, eins og við munum sem vorum á vellinum þá, að árið 2009 gapti við okkur gap ginnunga, hola upp á 217 milljarða kr. Svona var staðan þá. Ríkisstjórninni tókst sem sagt að bæta úr þessu með ærnu erfiði. Núna erum við komin í þá stöðu að frá 2010 má heita að þær áætlanir sem lagðar voru af hálfu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við AGS hafi staðist upp á punkt og prik. Meira að segja atvinnuleysistalan núna 2015 er nánast sú sama og þá var skráð í áætlanir ríkisstjórnarinnar og AGS, þ.e. plús/mínus 3%. Í dag er hún 2,9%.

Við þessar aðstæður hefði auðvitað verið mögulegt fyrir okkur að lækka skuldir ríkisins allverulega. Nú veit ég að það kann að vera mögulegt þegar að því kemur að stöðugleikaframlög, sem ég ætla ekki að gera að miklu umræðuefni í ræðu minni nú, fara að berast ríkissjóði og þegar hægt verður að afsetja þær eigur, eins og menn muna þá koma bara 8 milljarðar í beinhörðum peningum, allt hitt eru einhverjar reytur sem þarf að koma í verð, þá verður sennilegt hægt að lækka skuldir ríkisins töluvert, en það eru líka ákveðnir tálmar á því. Það sem við hefðum auðvitað þurft að gera er að vera hér með langtímaáætlun sem byggði á þeim tekjustofnum sem búið var að reyna að byggja upp og treysta og sem skiluðu mjög góðum árangri í tíð síðustu ríkisstjórnar án þess að skilja Ísland eftir á einhverju háskattasvæði. Ég rifja það sérstaklega upp að gerð var könnun á því af hálfu OECD og þar kom í ljós að þrátt fyrir allan vælinn í þingmönnum ríkisstjórnarinnar sat Ísland miðja vegu. Við vorum ekki lágskattaland, við vorum heldur ekki háskattaland. Með öðrum orðum, skattstofnarnir voru mjög traustir, mjög þéttir. Hvað þá í núverandi árferði, hvað hefðu þeir gefið af sér núna við aðstæður þar sem sjávarútvegur er til dæmis í blússandi gangi? Ég er ansi hræddur um að við hefðum ekki aðeins fengið fjármagn til þess að gefa svolítið hressilega í varðandi innviðina, bæði uppsafnaða þörf á sviði samgangna og innan heilbrigðis- og menntakerfisins, heldur um leið getað greitt niður skuldir.

Hvað er það mikið sem ríkisstjórnin hefur sennilega vísað frá sér til dags dato á þessu kjörtímabili? Ég hlustaði á hv. þm. Björn Val Gíslason reifa það hér í ræðu sinni í gær eða fyrradag og hann komst að þeirri niðurstöðu að það væru 100 milljarðar. Mundi það ekki skipta máli ef við hefðum getað greitt skuldir niður að nafnverði um 100 milljarða? Mundi það ekki þýða nokkra milljarða sem við hefðum þá úr að spila aukreitis til þess að fara í kerfið hjá okkur?

Hv. þm. Jón Gunnarsson hélt hér mikla ræðu og fór mikinn og jafnvel gustaði aftan af honum. Hann vildi eins og hinir að við sem tökum þátt í þessari umræðu ræddum þessar stóru línur. Hv. varaformaður fjárlaganefndarinnar og ýmsir keikir pótintátar, eins og sá sem ég nefndi hér og ekki síður hv. þm. Óli Björn Kárason, hafa talað um það aftur og aftur að fara þurfi yfir stóru línurnar. Ég tel að ég hafi hér farið yfir stóru línurnar fram að þessu ári. Það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon líka. Þessi hv. þingmenn hafa hins vegar ekki, og ekki heldur hv. þm. Jón Gunnarsson, treyst sér í mikla umræðu um þróun ríkissjóðs eins og hann er staddur núna þó að þeir grátbiðji menn um að draga upp hinar stóru línur. Mér finnst það vera greindarmerki hjá þeim og sýna að þeir hugsa fram í tímann því að auðvitað þurfum við að velta fyrir okkur hver þróunin verður. Það er líka svolítið háskalegt hjá þeim, sem sýnir að þeir eru afreksmenn að kjarki, að biðja menn um að skoða hinar stóru línur.

Hver er stóra línan í því frumvarpi sem við erum að ræða? Ætli það sé ekki sú staðreynd að þessari ríkisstjórn hefur mistekist að nýta færin sem felast í því sem bankastjóri Landsbankans kallaði blússandi góðæri til þess að koma ríkissjóði á styrkari leggi og halda þannig áfram verkefnum fyrri ríkisstjórnar til að styrkja innviði hans. Stóra línan í þessu frumvarpi er nefnilega sú að það er bókstaflega enginn afgangur á fjárlögum og hefur þó, eins og ég hef þegar rakið, heldur hallað á vegna breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar. Sá litli afgangur sem var í frumvarpinu var með þeim tillögum lækkaður úr 18 milljörðum niður í 10 milljarða.

Stóra línan er líka sú að í þessu frumvarpi er ekkert verið að greiða niður skuldir ríkisins, eins og ég gat um hér áðan. Meirihlutaálitið segir beinlínis á mörgum stöðum og bergmálar þar ríkisfjármálaáætlunina sem samþykkt var í fyrra að það verði ekkert greitt niður af skuldum á næstu þremur árum og það verði í fyrsta lagi þegar vindur fram á árið 2019 sem það gerist. Stóra línan, hv. þm. Jón Gunnarsson, í þessu frumvarpi er sú að þetta er þriðja árið í röð sem við hjökkum í sama farinu og greiðum ekki niður skuldir. Það skiptir máli.

Það er líka ein af stóru línunum í þessu að enn einu sinni er komin upp sú staða að ríkisfjármálin styðja ekki lengur peningamálastefnu Seðlabankans. Sú gliðnun sem er þar á milli hún er líkleg til þess að verða einn af þeim óbeinu hvötum sem ýta undir vaxtamunarviðskiptin sem eru nú í nokkuð örum vexti og eru um það bil það síðasta sem við þurfum á að halda.

Hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason, stóra línan í þessu frumvarpi er líka sú að það skortir alla framtíðarsýn til þess að byggja undir betra Ísland. Menn horfa ekki til framtíðarinnar. Það kemur t.d. fram í því að í frumvarpinu birtist nánast algert stefnuleysi í menntamálum. Það er verið að kasta einhverjum 50 milljörðum í samstarfsverkefni milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands varðandi tölvunám. Bifröst, HR og að ég held HA fá 20 milljónir hver. Það er engin lína. Þó liggur alveg ljóst fyrir að ef það er eitthvað sem við þurfum að stokka upp á Íslandi þá er það menntakerfið. Við sjáum að þar er misvægið mjög mikið. Við þurfum ekki annað en skoða McKinsey-skýrsluna. Þar kemur í ljós að á sama tíma og við erum að eyða 29% meira í grunnskólann þá fáum við minna út úr honum en flestar aðrar þjóðir. Við stöndum okkur miklu verr til dæmis í PISA-könnunum en nágrannaþjóðirnar. Á sama tíma setjum við minna fé en nágrannaþjóðirnar í framhaldsskólann, 5% minna en meðaltalið er á Norðurlöndum. Það sem er þó sláandi er að undirstaða skapandi hugsunar, nýmæla, nýjunga og frumkvæðis í íslensku atvinnulífi, sem eru háskólarnir okkar, fá 36% minna en háskólar annars staðar á Norðurlöndum á nemanda.

Ég hefði óskað eftir því að þegar komið væri fram á þriðja ár kjörtímabilsins færi ný ríkisstjórn að sýna á spilin hvað þetta varðar. Það er sem sagt ekkert. Það er engin framtíðarsýn hvað menntun varðar í þessu fjárlagafrumvarpi.

Enn ein stóra línan í þessu frumvarpi er sú staðreynd að það vantar 3 milljarða til þess að rekstur Landspítalans gangi upp eða gangi fram með þolanlegum hætti miðað við það sem forsvarsmenn spítalans fá. Þegar þeir koma á fund fjárlaganefndar og bera þetta upp með sterkum rökum sem engum hefur tekist að hrekja þá er bara sagt að það sé væll og þeir sakaðir um að beita vesalings forustuna í nefndinni andlegu ofbeldi.

Stóra línan sem yfirgnæfir kannski allt annað í þessu frumvarpi til fjárlaga er að þar birtist sú staðreynd að ríkisstjórnin virðist ekki hafa sömu sterku leggina og sumir ráðherrar fyrri ríkisstjórnar gagnvart því að takast á við útgjöld. Á þeim tíma skárum menn niður og stöðvuðu lekann sem fossaði út um götin á ríkissjóði. Sjálfstæðismenn, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, hv. varaformaður fjárlaganefndar, hv. aðhaldsþingmaður Jón Gunnarsson, að ég nefni ekki hv. þm. Óla Björn Kárason, virðast algjörlega hafa lyppast niður. Það var aumkunarvert að hlusta á hv. þm. Óla Björn Kárason og heyra í kjölfarið hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson koma hingað og væla, vera hálfkjökrandi í ræðustól Alþingis og kvarta undan því að þeir réðu engu vegna þess að ósýnileg öfl ynnu á móti þeim, hvort heldur það væru embættismenn, ráðuneyti eða einhverjir aðrir, þeir gátu ekki skilgreint það. Þeir féllust á það og trúðu þinginu fyrir því að þeir hefðu ekki getað staðist þennan straum. Það vill svo til að á fyrra kjörtímabili voru menn sem gátu það. Einn af þeim situr hér í salnum og heitir Steingrímur J. Sigfússon. Hann er sá þingmaður sem þingmenn Sjálfstæðisflokks virðast vera skíthræddastir við í þessari umræðu vegna þess (Gripið fram í.) að þeir hafa ekki þorað að koma hingað og reyna að hrekja eitt einasta orð af því sem hann var að segja um verk fyrri ríkisstjórnar, enda er það ekki hægt. Núna er einfaldlega búið að klappa í stein ríkisreikninga þriggja ára. Það er sama þó að menn flýi í felur í afherbergi og leiti skjóls undir pilsfaldi hv. formanns fjárlaganefndar, [Hlátur í þingsal.] þeir geta ekki flúið þá staðreynd að þetta var eins og því var lýst.

Ég ætla að taka dæmi af sjálfum mér, herra forseti. (VigH: Má bjóða þér undir pilsfaldinn?) — Ég er smekkmaður.

Herra forseti. Í staðinn fyrir að fara að skaka skellum að einhverjum embættismönnum eða tala hvorir við aðra þá áttu þessir menn auðvitað að koma til reyndra manna, til reynslubolta, til manna sem hafa tekist á við sama vanda. Ef hv. þingmenn hafa ekki kjark til þess að eiga orðastað við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og fá hjá honum góð þrautreynd ráð þá hefðu þeir getað komið til gamla vinar síns sem hér stendur, Össurar Skarphéðinssonar. [Hlátur í þingsal.] Það er rétt að fara aðeins yfir það. Þegar ég var utanríkisráðherra haustið 2009 þá átti ég frumkvæði að því að skorið var niður um 23% að meðaltali frá fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi, auk 2% hagræðingar til viðbótar. Árið eftir, 2010, hafði ég frumkvæði að því að skorið var niður um 16,4% og 9,5% árið 2011. Ég lokaði sex sendiskrifstofum. (Gripið fram í: Gott hjá þér.) (Gripið fram í: Vel gert.) Má ég rifja það upp fyrir ágætu talsmönnum þess að minnka báknið og kasta því helst burt að þeir eru núna, eftir að hafa jagast í mér á síðasta kjörtímabili yfir því að loka sendiráðum, aðilar að tillögu um að opna sendiráðin sem ég lokaði á þeim tíma. Eitt af því sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu bókstaflega tillögu um í fjárlaganefndinni var að loka tveimur sendiráðum. Það var farið að því. Eitt af því var sendiráðið í Strassborg. Nú bera allt í einu þingmenn Sjálfstæðisflokksins það fram sem sérstaka ósk sína að sendiráðið sem ég lokaði í sparnaðarskyni verði opnað aftur. Þeir höfðu algjörlega rétt fyrir sér þá þegar þeir settust á rökstóla með mér og bentu á að það væri lúxus að hafa tvö sendiráð í Frakklandi. Ég var þeim algjörlega sammála.

Ég spyr hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Óla Björn Kárason og fyrrverandi formann Lögmannafélags Íslands: Hvað hefur breyst? [Hlátur í þingsal.] Hvað hefur breyst? Það er von að þeir hlæi niður í tær vegna þess að þeir eru rauðir í framan af skömm vegna þess að þeir hafa fullkomlega snúið við blaðinu. Það sem ég, fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og aðrir gátum gert var að berjast gegn öllum þeim sem sífellt vildu meiri og meiri útgjöld. Þeim tókst það ekki vegna þess að þeir hafa ekki bein í sínum pólitísku fótleggjum. Þetta er nú staðan. (Gripið fram í: Spóaleggjum.) Þetta er nú staðan. Mér finnst það vera með ólíkindum að þeir þingmenn sem stöðugt eru að rífa sig niður í rass yfir því að það sé verið að þenja út báknið hér og hvar — hvar eru þeir svo staddir á vellinum þegar þeirra eigin ráðherrar koma með einhverjar mestu furðuhugmyndir sem maður hefur nokkru sinni heyrt?

Tökum dæmi af ferðamálum, vissulega vaxandi atvinnugrein sem við þurfum að hlúa að. Þar eru nú þegar tvær stofnanir á vellinum. Hvað gerir þá hæstv. ferðamálaráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir? Hún þarf að skjóta einhverjum stól undir rass einhvers góðs manns, ég ætla ekki að segja gæðings, ég ætla ekki einu sinni að kalla það bitling, en það er búin til sérstök stofnun, Stjórnstöð ferðamála, sem kostar þegar upp er staðið á annan milljarð. Hvar eru þá þessir vösku vígamenn sem vilja berjast gegn því að menn séu að eyða peningum skattborgaranna með vitlausum hætti? Hvar var hv. þm. Jón Gunnarsson þegar stallsystir hans og flokkssystir, hæstv. iðnaðarráðherra, lagði fram þá vitlausustu tillögu sem hefur séð dagsins ljós, a.m.k. undanfarin tíu ár? Hann sat úti í sal og þagði. Hann situr núna inni í herbergi og hann hlær vegna þess að hann hefur ekki pólitíska burði til þess að fylgja sinni góðu sannfæringu í þessum málum. Svona gæti maður talið upp mál eftir mál eftir mál eftir mál. Það er ekkert að marka það sem þessir menn segja þegar þeir tala um að við í stjórnarandstöðu séum alltaf að kalla á meiri útgjöld. Munurinn á okkur og þeim er sá að við látum þó fylgja tillögur um tekjur. Það er það sem hefur alltaf verið aðall okkar tillagna. Við setjum ekki fram einhverjar heimskulegar tillögur um óþarfa eins og að setja upp nýtt sendiráð í Strassborg eða Stjórnstöð ferðamála.

Ég spyr hv. þm. Jón Gunnarsson og ef hann treystir sér ekki til þess að svara því þá hv. þm. Óla Björn Kárason og ef hann hefur ekki heldur kjarkinn þá tek ég þann sem er hugumstærstur og við vitum að aldrei bregst og aldrei fer undan í ótta, hv. þm. Brynjar Níelsson, fyrrverandi formann Lögmannafélagsins, [Hlátur í þingsal.] ég spyr þessa herramenn og vona að þeir hafi kjark til þess að koma upp í ræðustól á eftir og segja mér hver eru rökin fyrir því að það sé réttlætanlegt að eyða peningum skattborgaranna í að búa til sendiráð númer tvö í Frakklandi. Það tókst vel að vinna þau störf án þess að hafa sérstakt sendiráð á síðasta kjörtímabili. Þetta vildi ég nú ræða alveg sérstaklega við þessa menn fyrst ég átti kost á því að eiga við þá hér orðastað.

Það er ákaflega margt fleira sem ég vildi ræða en það er eitt sem mig langar að fara yfir að lokum. Það er lítið mál. Það er umboðsmaður Alþingis. Það er stofnun sem við bárum gæfu til að sameinast um að setja á laggir á sínum tíma. Við höfum alltaf lagt ríkt á við að sú stofnun verði sem sjálfstæðust og að hvergi sé að henni sótt með einum eða neinum hætti. Það var meðal annars þess vegna sem eitt af því sem skipti máli um sjálfstæði hennar var að engir ráðherrar og ekkert framkvæmdarvald kæmi að því að velja hver settist í það embætti, það yrði kosið hér af okkur. Það er partur af þeirri víggirðingu sem við höfum slegið um þá stofnun sem eina af okkar helstu eftirlitsstofnunum og tækjum til þess að geta veitt framkvæmdarvaldinu aðhald.

Ég hef í mörg ár verið þeirrar skoðunar að beittasta tækið sem sú stofnun hefur séu sjálfstæðar frumkvæðisathuganir. Ég hef rætt það í þinginu, ég haf lagt fram tillögur um það og ég ræddi það við umboðsmann fyrir nokkrum árum hvort ekki væri þörf á því að setja upp sérstakan fjárlagalið þar sem ljóst væri að því sem á hann færi yrði öllu varið til frumkvæðisathugana. Umboðsmaður hefur lýst því skýrt yfir að hann telji að það sé æskilegt. Í hverri ársskýrslu hans á fætur annarri kemur fram að vegna þess að embættið er eiginlega fórnarlamb eigin velgengni, þ.e. það svarar þörfum samfélags okkar svo vel, þá berast því stöðugt fleiri erindi. Það veldur því en á meðan fjármagnið til stofnunarinnar er ekki hækkað sitja frumkvæðisathuganirnar á hakanum. Við höfum séð hverju þessar frumkvæðisathuganir hafa skilað. Þær leiddu til þess að flett var ofan af vellandi sári hjá framkvæmdarvaldinu sem varðaði samskipti hælisleitanda og framkvæmdarvaldsins þar sem hver lygin á ofan annarri var bókstaflega tínd upp úr sárinu. Það leiddi til þess að tíundi hluti framkvæmdarvaldsins varð að segja af sér. Þó að því máli hafi í gustukaskyni aldrei lokið á hinu háa Alþingi þá var það algjörlega klárt að þessu var ekki vel tekið í hópi stjórnarliða. Það er algjörlega klárt að innan stjórnarflokkanna, sérstaklega hjá þeim sem mest völdin hafa, vilja menn vinna heldur frá því að efla frumkvæðisathuganir.

Herra forseti. Þess vegna er lítil tillaga hér um 15 milljónir í frumkvæðisathuganir á vegum umboðsmanns Alþingis. Það er í samræmi við ósk hans sjálfs. Hann vill fá einn mann, eina manneskju, einn lögfræðing, sem sinni þeim eingöngu. Það kom fram í síðustu skýrslu hans að hann hafði átta til níu mál sem hann taldi nauðsynlegt að rannsaka til þess að vernda borgarana gegn of mikilli valdaásælni framkvæmdarvaldsins, en hann gat bara tekið tvö. Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli. Ég hvet þingheim allan til að sameinast um þessa tillögu. Hún er táknræn.