145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurningarnar. Mér hafði ekki einu sinni dottið í hug að það væri virðisaukaskattur á lyfjum. Það er bara einhvern veginn svo skrýtið. Að sjálfsögðu styð ég að hann verði afnuminn. Það er allt einhvern veginn svo margskattað á Íslandi, það er mjög skringilegt fyrirkomulag með marga hluti. Á einhvern sérstakan hátt er oft dýrara að kaupa hluti sem maður verður að fá. Það voru gerðar töluvert miklar breytingar á þessu risastóra og flókna kerfi með lyfin og að einhverju leyti held ég að það hafi komið verr út fyrir marga. Ég hef orðið vitni að því að margir hafa hreinlega ekki efni á að leysa út lífsnauðsynleg lyf. Mér finnst mjög leiðinlegt að verða vitni að því að veruleikafirringin sé svo mikil hjá silfurskeiðungunum að þeir átti sig ekki á því að með því að koma svona lítið til móts við fólk og líta svo á að það sem núna er verið að gera fyrir fátækasta fólkið á landinu sé einhvers konar risagjörningur sýna þeir ofboðslega mikla veruleikafirringu.

Ég verð síðan að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að mig langar að biðja hana að endurtaka síðari spurninguna þannig að ég geti svarað henni í seinna andsvari.