145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni og þakka honum fyrir ræðuna. Ég ræddi þetta einmitt í ræðu minni í morgun af því að meiri hlutinn er alla tíð að guma af auknum ríkisrekstri og að verið séð að leggja meira til. Þá skiptir máli hvaða stærðir við miðum okkur við. Það kemur ágætlega fram hér, eins og hv. þingmaður rakti, og það er auðvitað svolítið hjákátlegt þegar verið er að tala um að samneyslan dragist saman um í kringum 60–70 milljarða frá því sem var fyrir hrun ef við tölum um verðlag dagsins í dag og landsframleiðsluna. Það er kannski þeirra stefna, öfugt við stefnu okkar vinstra fólks sem viljum halda samneyslunni á ákveðnu stigi. Að mínu mati er þetta áhyggjuefni og ég heyri að hv. þingmaður er mér sammála um það, því að stærsti hlutinn er náttúrlega velferðarútgjöldin sem þarna eru undir.

Ég held að það hljóti að vera svo þegar þingmenn guma af þessu að þeir þurfi pínulítið að hugsa um það að þetta snýst ekki einungis um, eins og einn góður maður sagði, að stemma kassann af í lok dagsins heldur snýst þetta um alla þá þætti sem við erum bundin af sem samfélag, sem ríkisaðilar sem eiga að sjá um þetta samfélag.

Mig langar að víkja að fyrri hluta ræðu hv. þingmanns og velta því upp með honum að þegar maður fer yfir umsagnir sem koma með frumvarpinu og við erum að kljást við ríkisstjórn sem vill ekki hækka við eldri borgara og öryrkja, þá var þar óskað eftir m.a. niðurfellingu á virðisaukaskatti og lyfjum og hjálpartækjum. Nú er náttúrlega verið að fella niður tolla og virðisauka og annað slíkt. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður ekki að það hefði verið skynsamlegra að bera þar niður, þar sem lítið annað hefur gerst í málefnum þessara hópa?