145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það eigi að gera allt til þess að auka skilning á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, af því að það eru hagsmunir okkar allra í þessu landi. Við erum ekki nema rétt um 330 þúsund þannig að við vinnum saman og byggjum þetta land upp saman og höfum samkennd hvert með öðru sem þjóð hvar sem við búum. Ég held að það sé brýnast.

Ef við tökum Vestfirði, af því að þeir eru ofarlega í huga mínum, er íbúafjöldi þar núna kominn undir 7 þús. manns og íbúarnir hafa einir og sér auðvitað ekki möguleika á að rísa undir allri þeirri grunngerð sem þarf að vera til staðar í því samfélagi. En íbúarnir hafa í gegnum tíðina lagt gífurlegar gjaldeyristekjur til þjóðfélagsins svo það er ekki eins og þeir séu að biðja um ölmusu þegar þeir gera kröfu um uppbyggingu vega (Forseti hringir.) og innviða og því um líkt. Þetta eiga þessir íbúar og íbúar í sambærilegri stöðu annars staðar á landinu inni hjá ríkisvaldinu.