145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk bréf í dag frá einum starfsmanni Landspítalans þar sem hann lýsti vinnuandanum sem þar hefur skapast. Hann lýsti því hvernig starfsmenn spítalans leggja sig alla fram og eru vissulega elskaðir af þjóðinni en vanmetnir af yfirvöldum. Hann lýsti því með hvaða hætti starfsmenn þar koma nálægt öllum helstu viðburðum í lífi þjóðarinnar, fæðingu og dauða. Þeir upplifa það þannig að þeirra störf séu vanmetin, jafnvel lítilsvirt. Ég held að þetta hafi mjög neikvæð áhrif til framtíðar á vinnuandann innan spítalans en ég held líka að þetta muni leiða til þess að hluta af starfseminni verði, og það er viðleitni þeirra sem að baki standa, ýtt út á markaðinn, að það sé verið að reyna að skapa einkavæðingu.

Varðandi Ríkisútvarpið tel ég í fyrsta lagi að þetta muni auðvitað leiða til gríðarlegra uppsagna og niðurskurðar í starfsemi Ríkisútvarpsins til skamms tíma. Til lengri tíma held ég að þetta sé hrein aðför að tilvist (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins og það sé verið að reyna að eyðileggja það.