145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar maður horfir yfir þingsalinn eru hér þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar sitjandi í sæti sínu og sá fjórði stendur við dyrnar úr þingsalnum. (BjG: Hvað viltu meira?) Það er nú allur hinn gríðarlegi áhugi stjórnarandstöðunnar á þessari umræðu, enda eru náttúrlega flestir búnir að fá hundleiða á henni, (Gripið fram í.)nokkrir hv. þingmenn hér komnir með hátt í tíu ræður. (Gripið fram í.)Ég held að það sé ekki til of mikils mælst, virðulegur forseti, þó að við mundum kasta þeim bolta til hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar og þingflokksformanna þeirra að þeir mundu nú skipuleggja tíma sinn aðeins betur og þeir kæmu því á framfæri hvaða málaflokka þeir vilja ræða og á hvaða tíma, vegna þess að þessar ræður eru út og suður hjá þeim, fram og til baka, og mikið orðið um endurtekningar. Ráðherrar eru búnir að vera hér í allan vetur til þess að ræða þessi mál við stjórnarandstöðuna. Þeir hafa komið hér og verið við þessa umræðu og ef við ætlumst til þess að ráðherrar skipuleggi tíma sinn, þeir hafa auðvitað þétta dagskrá, þá (Forseti hringir.) er lágmarkskrafa (Forseti hringir.) að stjórnarandstaðan skipuleggi (Forseti hringir.) umræðu sína og segi okkur hvað (Forseti hringir.) hún vill tala lengi, á hvaða tíma og um hvaða málaflokka, þannig að ráðherrarnir geti þá mætt óskum hennar.