145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta er allt á sömu bókina lært. Sjávarútvegur hefur aldrei skilað jafn miklum tekjum til samfélagsins, þar með talið til ríkisins, og nú. Ef menn hefðu hins vegar farið leið síðustu ríkisstjórnar og hækkað enn álögur á sjávarútveginn, samkvæmt því plani sem síðasta ríkisstjórn hafði kynnt, þá liggur ljóst fyrir að a.m.k. tugir, hugsanlega hundruð, lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja hefðu komist í þrot. Það hefði orðið enn meiri samþjöppun í greininni og heilu byggðarlögin hefðu lent í verulegum vandræðum. Hver hefðu orðið áhrifin af þessu fyrir ríkissjóð, virðulegi forseti, svo ekki sé minnst á allar þær byggðir sem hefðu farið illa út úr þessu? Áhrif á ríkissjóð hefðu orðið þau að tekjur hans hefðu minnkað og útgjöld hans hefðu aukist en með skynsamlegri stefnu og gjaldtöku eftir ólíkum leiðum hefur tekist að auka tekjur ríkissjóðs og samfélagsins alls af sjávarútvegi þannig að þær hafa aldrei verið meiri.

Stundum og iðulega, virðulegur forseti, borgar sig að hugsa hlutina til enda, reikna dæmið í heild (Gripið fram í.) og þá ná menn bestu niðurstöðu. Það er ekki gert í tillögum stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.)