145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um upphæð tryggingagjalda. Hér er kominn tekjustofn sem mér finnst algert réttlætismál að lækki. Hann þurfti að hækka mjög í eftirleik hrunsins út af mjög miklu atvinnuleysi til þess að standa straum af atvinnuleysisbótum. Síðan hefur atvinnuleysi minnkað mjög en áfram er tryggingagjaldið svona hátt. Þá er augljós spurningin: Hvað gerum við næst þegar atvinnuleysi vex ef við ætlum að halda tryggingagjaldinu svona háu? Þurfum við þá að hækka það enn frekar? Tryggingagjaldið á auðvitað að sveiflast eftir því hvernig árar í atvinnulífinu. Síðan er líka búið að hætta við lengingu á fæðingarorlofi og þar með minnka þann hluta tryggingagjaldsins. Samt lækkaði tryggingagjaldið ekki. Það er sífellt verið að klípa af þessu gjaldi og ríkisstjórnin stendur sig ekki í því að sinna þeim verkefnum sem gjaldið á að dekka. Þetta er arfaslök framkvæmd í tekjuöflun.