145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefði verið áhugavert að heyra í hæstv. ráðherra hvert hún sæi þessa fjármuni fara því að það kom fram í máli formanns fjárlaganefndar að þeir færu til þessarar nýju stjórnstöðvar. Nú erum við með virka Rannsóknamiðstöð ferðamála á Akureyri sem hefur séð (Gripið fram í.) að mestu leyti um rannsóknir í ferðamálum. Þess vegna hefði mér þótt tilhlýðilegt að hér væri skýrt hvert þessir fjármunir færu. Mér þykir ekki eðlilegt að verið sé að setja þá inn í þessa nýju stjórnstöð. Ég tel að þeir eigi heima þar sem gæðarannsóknir hafa farið fram, virðulegi forseti.