145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

aðgangur 25 ára og eldri að framhaldsskólum.

[11:54]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um þá stefnu sem hefur núna verið knúin fram með fjárveitingavaldi að meina 25 ára og eldri, þ.e. fullorðnum nemendum, aðgang að framhaldsskólum landsins. Í ljós hefur komið í umræðunni að það eru í kringum 740 manns sem í reynd hefur verið þrýst út úr hinu opinbera framhaldsskólakerfi og yfir í annað kerfi sem er þá símenntunar- og fullorðinsfræðslukerfi sem hefur upp á að bjóða annað námsframboð og felur auðvitað í sér stóraukinn kostnað. Það má því segja að þessi tilhögun feli í sér mismunun og þetta kemur verst niður úti á landi þar sem fólk hefur hingað til átt þess kost að sækja sér menntun í framhaldsskólakerfinu og ljúka stúdentsprófum þó seint sé. Þetta hefur ekki síst átt við um konur sem hafa verið bundnar yfir börnum en nú er búið að loka í reynd á þennan möguleika.

Þetta vekur spurningar um sýn stjórnvalda og þar á meðal hæstv. menntamálaráðherra á hlutverk menntakerfisins í samfélagi okkar. Í mínum huga er menntun sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á velferð fólks og möguleika þess til virkni og þátttöku í samfélaginu, m.a. á vinnumarkaði. Mig langar til að heyra af munni hæstv. menntamálaráðherra hver sýn hans er á tengsl menntakerfisins við t.d. byggðastefnu.