145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og get í sjálfu sér tekið undir það og ég vona svo sannarlega að þegar þessu máli lýkur, á hvern hátt sem það verður, getum við snúið okkur að því að ræða inntakið í þróunarsamvinnunni og það verkefni sem hlýtur að liggja fyrir okkur á næstu árum, þ.e. að hækka framlag Íslands sem er núna í hinu skammarlega 0,21%, á meðan þjóð með okkar þjóðartekjur ætti að geta veitt 0,7% af þjóðartekjunum í málið. Þar getum við verið sammála. En það breytir ekki því að ég hef eftir sem áður áhyggjur af umgjörðinni sem málinu verði búin.

Fram kom hjá gestum nefndarinnar, að embættismönnum úr utanríkisráðuneytinu frátöldum, að þeir lýstu áhyggjum af því að fagþekkingin mundi glatast eða útvatnast. Af því höfðu ráðuneytisstarfsmennirnir ekki sömu áhyggjur og höfðu skýringar og svör við því af hverju þeir hefðu ekki áhyggjur. En aðrir gestir lýstu yfir mjög miklum áhyggjum. Þess vegna er eitt af því sem við í minni hluta nefndarinnar leggjum til að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands skuli vera undanþegnir ákvæði laganna sem fjalla um flutningsskyldu.

Mig langar að lokum að spyrja hv. þingmann hvort hún sé alveg (Forseti hringir.) fullsannfærð um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af flutningsskyldunni. Ég hef persónulega einmitt dýpri áhyggjur af því að hér sé hreinlega ekki vel um málin búið í frumvarpinu.