145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það kom fram, sérstaklega í máli fulltrúa frá Þróunarsamvinnustofnun, að það fyrirkomulag sem tilheyrir utanríkisþjónustunni og starfsemi utanríkisráðuneytisins gæti haft áhrif á það að fletja út þessa þekkingu, eins og það var orðað. Að hún þyrfti að vera mjög djúp hvað varðar þróunarmálin og að þetta gæti valdið því að yfirborðið yrði gárað meira en það yrði á dýptina. Aðrir, þar með taldir fulltrúar ráðuneytisins sem starfa að þróunarmálum, höfðu ekki áhyggjur af þessu, sögðu að í utanríkisráðuneytinu væru menn með víðtæka og breiða þekkingu og þyrftu að koma víða við í því. Ég treysti því bara að við fylgjum því vel eftir. Ég trúi því að menn vilji gera vel í þessu og vandi sig í því.

Varðandi flutningsskylduna kom auðvitað líka fram að sumir hafa af því áhyggjur, aðrir lýstu því sem veruleika sem það fólk sem starfar fyrir Þróunarsamvinnustofnun hefði alltaf vitað af og hefði sjálft þurft að fara til starfsstöðva innan stofnunarinnar og liti svo á að það væri bara hluti af starfsumhverfi þeirra og sæi það ekki sem sérstaka hindrun. Sumir virðast telja það frekar kost en galla. Ég held að sé allt í því. En með því er ég síður en svo að gera lítið úr þeim áhyggjum sem réttilega komu fram. Sannarlega er það rétt hjá hv. þingmanni að fram komu áhyggjur hjá starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar um flutninginn eins og hann leggur sig og afar margt í því. En það kom jafnframt fram hjá þeim starfsmönnum og starfsmönnum utanríkisráðuneytisins að verið væri að vinna að þessu sameiginlega og menn mundu ræða sig í gegnum það. Ég treysti því að það ferli sé með þeim hætti að menn séu að hugsa um að varðveita málaflokkinn og gæta þess að vel sé unnið að málinu. Ég held að sé mikilvægt, og þess vegna leggjum við líka til þessa breytingartillögu, að þingið hafi líka aðkomu að ákveðnu eftirliti og eftirfylgni í því.