145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lét í ljósi margvíslegar efasemdir, bæði tæknilegar og líka út frá efnahagslífinu, um þær aðgerðir sem er verið að fara í varðandi tekjuskattinn.

Ég vil segja fyrst: Ég vil frekar lækka tryggingagjaldið en tekjuskattinn. Ég held að það þurfi að minnka það hlutfall sem launagreiðendur greiða til ríkisins af þeirri upphæð sem fer til launamannsins. Ég held að þetta sé orðið mjög mikið. Ég hafði líka efasemdir um að fækka þrepunum vegna þess að ég held að við eigum að hafa þrjú þrep og reyna frekar að færa þau upp og hlífa millistéttinni þannig og ná frekar í auknar tekjur af þeim sem hafa virkilega há laun. Ég held að það sé sanngirnismál að reyna að ná tekjujöfnunaráhrifum betur með þremur þrepum.

Svo er það þetta með að auka ráðstöfunartekjur og allt það. Það er bara svo mikið að gerast í einu. Vissulega var það sagt í kreppunni að ekki væri svigrúm til að lækka skatta en vegna hvers var það? Það var vegna þess að 2003 og 2007, kosningabaráttan þá, snerist allt um að lækka skatta, á einhverjum mestu góðæristímum sem hér höfðu verið. Mér fannst það ekki skynsamlegt. Mörgum fannst það ekki skynsamlegt. Þess vegna talaði ég um að þetta lyktaði allt saman af hefðbundnum hagstjórnarmistökum.

Við eigum ekki að nota þetta verkfæri, þegar svona margt er hagfellt, að auki sem er skattalækkanir. Bíðum aðeins með það þar til virkileg þörf verður á því að örva atvinnulífið og auka kaupmátt. Nú hefur kaupmáttur aukist mjög mikið á undanförnum árum. Er þá rétti tíminn til að lækka skatta akkúrat núna? Hvað eigum við að lækka þegar meiri þörf verður á því?