145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrir mjög góða ræðu, sér í lagi á sviði tolla. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þingmanni með það — og hefur nú löngum verið bent á það, og ekkert um það deilt — að tollar skekkja hagræði utanríkisviðskipta. En einhvern tímann fóru menn út á þá óheillabraut að fara í ýmiss konar útgáfu af tollum, bæði til öflunar ríkistekna, til að vernda innlenda framleiðslu, jafnvel til að refsa fyrir óæskileg áhrif af einhverri vöru o.s.frv. Ég ætla ekki að fara í þá sögu alla. Við sjáum að síðan er viðleitni til að brjóta þetta niður í formi fríverslunarsamninga og gagnkvæmra samninga til að reyna að ná því óhagræði sem af þessu hlýst út úr viðskiptum.

Varðandi snakkið þá var athygli hv. efnahags- og viðskiptanefndar vissulega vakin á því að það væru afar háir tollar á þessu tollanúmeri sem hv. þingmaður fór hér yfir, 2005.2003, sem er nasl og skífur og skrúfur, hringir, keilur og stangir, en þó ekki kartöflumjöl. Hún fór svo yfir það að það eru fleiri flokkar, fleiri tollflokkar og fleiri hráefni. Við vorum hins vegar í þeirri trú að þetta væri í samhengi við samning sem gerður var við Evrópusambandið sem kemur svo í ljós að steig ekki alla leið niður í núll heldur, eins og hv. þingmaður benti á, einvörðungu niður í um 40%, í 35% hygg ég það hafi verið.

Er ekki sjónarmið í því að setja þetta fram heildrænt og í frumvarpi til að gæta meðalhófs og jafnræðis og gefa þeim aðilum sem starfa í þessum rekstri færi á að bregðast við með umsögnum og fylgja þeim eftir? Það er þetta hefðbundna ferli í vinnu í nefndum.