145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

gatnagerðargjald.

403. mál
[23:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 153/2006, um gatnagerðargjald, með síðari breytingum. Lagt er til að við 1. tölulið ákvæðisins til bráðabirgða við lögin komi dagsetningin 31. des. 2017 í stað 31. des. 2015. Breytingin felur í sér að gildistími heimildar til álagningar og innheimtu svokallaðs B-gatnagerðargjalds verði framlengdur um tvö ár til ársloka 2017. Er það gert í þeim tilgangi að veita þeim sveitarfélögum sem ekki hafa enn lokið framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á eldri götur og lagningu gangstétta aukið svigrúm til að ljúka því verkefni og fjármagna það með álagningu og innheimtu þessa gjalds.

Bráðabirgðaákvæði þetta, virðulegi forseti, hefur verið í lögum frá setningu laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, en það tekur aðeins til lóða sem var úthlutað eða veitt byggingarleyfi fyrir fyrir 1. janúar 1997. Heimildin var framlengd við gildistöku núgildandi laga nr. 153/2006 en átti að falla úr gildi í árslok 2009. Í kjölfar efnahagshrunsins var heimildin framlengd til ársloka 2012 til að auðvelda sveitarfélögum að bregðast við efnahagsástandinu. Á árinu 2012 var gildistími ákvæðisins enn framlengdur, nú til ársloka 2015, þar sem fram höfðu komið um það eindregnar óskir frá sveitarfélögum á landsbyggðinni sem ekki sáu fram á að geta lokið þessum gatnagerðarframkvæmdum í tíma.

Það er að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga að lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðisins verði enn framlengdur. Samkvæmt könnun sambandsins eiga sjö sveitarfélög enn ólokið framkvæmdum sem heimilt er að fjármagna með þessu gjaldi. Samtals eiga þessi sveitarfélög eftir að leggja bundið slitlag á um 20 götur en framkvæmdir eru hafnar í tveimur sveitarfélaganna. Samkvæmt upplýsingum frá sambandinu má áætla að kostnaður við þessar framkvæmdir geti í heild numið á bilinu 150–200 millj. kr. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að verði heimildin framlengd með þeim hætti sem hér er lagt til muni viðkomandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga leggja fram áætlun um lok umræddra gatnagerðarframkvæmda og kynna innanríkisráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að að þessari umræðu lokinni verði því vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.