145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

niðurstaða vinnu stjórnarskrárnefndar.

[13:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka hefur nú unnið frá sumrinu 2013 að breytingum á stjórnarskrá. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa tekið þátt í þessu af heilindum. Við höfum reynt að einbeita okkur í þeirri vinnu að nokkrum þáttum sem samstaða varð um í nefndinni að horfa fyrst og fremst á. Nú er það hins vegar svo að búið er að halda fjöldamarga lokafundi í nefndinni og sífellt er beðið svara frá stjórnarmeirihlutanum um hvað hann treysti sér til að gera og hvaða breytingum hann er tilbúinn að standa að á stjórnarskránni.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra við hverju er að búast í þessu efni. Munu stjórnarflokkarnir vilja nýta það lag sem nú er til breytinga á stjórnarskrá? (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er bara búinn með eina mínútu.

(Forseti (EKG): Það hefur verið villa. Afsakið, þá leiðréttir forseti það.)

Munu stjórnarflokkarnir nýta það tækifæri sem nú er til breytinga á stjórnarskrá? Ég minni sérstaklega á að hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur lofað því að sett verði í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Mun stjórnarmeirihlutinn standa við það loforð nú? Munu fulltrúar Framsóknarflokksins standa við það fyrirheit sem forsætisráðherra sjálfur hefur gefið sem og varaformaður Framsóknarflokksins úr ræðustól Alþingis?

Hæstv. forsætisráðherra er duglegur að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um ýmis mál, m.a. mál sem hann er sjálfur búinn að lofa að leggja fyrir Alþingi en hefur heykst á. Er ekki nær að veita þjóðinni sjálfri réttinn til þess að kalla mál í þjóðaratkvæði en að við þurfum að bíða (Forseti hringir.) eftir því hvernig dagsformið er hjá hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum eftir því (Forseti hringir.) hvort þjóðin fái í reynd að tjá sig um mál sem varða hana miklu?