145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er mín spá. Þetta er mín tilfinning fyrir því, og byggð á samtölum við marga aðila og heimsóknum í efnahags- og viðskiptanefnd í fyrra, að líklegasta afleiðingin af því að menn gleptust til að samþykkja þetta frumvarp yrði sú að stórmarkaðirnir mundu sölsa þetta undir sig; þeir mundu ná umboðunum, þeir mundu útrýma heildsölum eða umboðsaðilunum að mestu leyti, kaupa þá upp eða ýta þeim út af markaðnum og næðu öllum tökum á þessu. Og þá færist þessi verslun inn í hvað? Inn í hið klassíska fákeppnisumhverfi á Íslandi. Í samkeppnislegu tilliti er því ekki hægt að sjá fyrir sér að þetta yrði til bóta. Hvort það hefði beinlínis áhrif á vöruverðið? Að einhverju leyti gæti þetta orðið til þess að húsnæðið nýttist betur, en á móti kæmu auknar mannaráðningar o.s.frv., ef menn ætluðu að standa almennilega undir því að tryggja að unglingar væru ekki að selja öðrum unglingum áfengi.

Auðvitað þarf ekkert að fara í grafgötur um að innheimta ríkisins á skatttekjum og öðru slíku er öruggust með því að ríkið sé með verslanirnar í sínum höndum. Ætli virðisaukaskatturinn og áfengisgjaldið og annað því um líkt skili sér ekki beinustu leiðina þannig? (Forseti hringir.) Það þarf enginn að efast um að áhættan liggur á hina hliðina ef þessu er sleppt frá ríkinu.