145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það sé sannarlega svo. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fjallar töluvert um áfengismál eða áfengisstefnu enda er áfengisneysla, og þá er ég auðvitað að tala um óhóflega áfengisneyslu, eitt af stærstu heilsufarsvandamálum samtímans. Það er ekki eitthvað sem ég, miðaldra kona, stend hér og er svona að óa og æja yfir af einhverjum tepruskap. Það er bara alvarlegt mál. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin nefnir sérstaklega, og allir þeir sem um þessi mál fjalla af ábyrgð, aðgengi og verðlagningu. Svo er ég algjörlega sammála því að auðvitað skipta viðhorfin máli. Nú er það svo og það má alveg segja að aðgengi að áfengi hefur aukist heldur betur á Íslandi. Við erum með miklu fleiri veitingastaði og bari og fleiri útsölustaði hjá ÁTVR, en á sama tíma hafa viðhorf líka verið að breytast. En samt er bent á það í skýrslu OECD að áfengisneysla á Íslandi sé að aukast. Hún er bara svo miklu, miklu minni en í mjög mörgum öðrum samanburðarlöndum. Það á auðvitað að vera markmið okkar að dregið verði úr áfengisneyslu en hún ekki aukin. Ég finn það líka hjá ungu fólki í dag að það byrjar síðar að drekka og það hefur önnur viðhorf til áfengis þó að það hafi eins og kynslóðirnar á undan áhuga á áfengi og smakki það flestir um síðir þó að sá aldur sé að færast upp.