145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

stefnumótun um viðskiptaþvinganir.

[10:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ágæt orð. Það er vitanlega eðlilegt að menn ræði þvinganir, viðskiptaþvinganir og til hvers þær eru og hvort þær virki og skili einhverju. Gjarnan hefur verið litið þannig á að það séu þrjú stig í samskiptum á alþjóðavettvangi. Það er þessi diplómasía, samtalið, að menn reyni að ræða hlutina áður en gripið er til einhverra aðgerða. Þvinganir eru þá næsta stig og áfram halda menn að ræða hlutina samt sem áður. Því miður er þriðja stigið einhvers konar vopnuð átök sem sjást því miður að sjálfsögðu allt of oft. Sem betur fer er í einhverjum tilfellum haldið áfram að ræða málin og reyna að finna lausn.

Það stendur ekki nein vinna yfir um það í ráðuneytinu að hverfa frá þeirri utanríkisstefnu sem við höfum haldið og verið partur af fram að þessu. Það er hins vegar sjálfsagt að fara yfir þau lög sem gilda um þvinganir á Íslandi. Ég hef í hyggju og hef rætt það í ríkisstjórn að skipa starfshóp í það minnsta til að byrja með, settan embættismönnum, til þess að yfirfara lögin sem gilda um þvinganir. Við sjáum svo til í framhaldinu hvort við gerum eitthvað meira í því eða víkkum þann hóp út eða hvað við gerum með það. Í það minnsta verða þær vangaveltur kynntar á einhverju stigi fyrir utanríkismálanefnd að sjálfsögðu.

Er gagn að þvingunum eður ei? Já, það eru til dæmi um gagnsemi þeirra, þær eru líka umdeilanlegar að sjálfsögðu. Hlutirnir breyttust í Suður Afríku til hins betra vegna viðskiptaþvingana svo dæmi sé tekið og við sjáum núna árangur af þvingunum gagnvart Íran, þar er komið samkomulag um að lyfta stórum hluta þeirra, ekki öllum reyndar, en það mun gefa Írönum tækifæri til þess að byggja upp land sitt og þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem beindust að þeim gagnvart kjarnorkuþróun og öðru slíku. Það hefur líka verið viðurkennt af hálfu forseta Rússlands að þvinganirnar hafa haft áhrif þar í landi (Forseti hringir.) þó svo að olíuverð hafi kannski meiri áhrif.