145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta því að þetta er sá liður sem maður á að nota til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Hann er hins vegar misnotaður eins og virðulegur forseti hefur bent á. Ég tel rétt að virðulegur forseti slái þá í bjölluna og það verði almenn regla ef við ætlum að halda svona áfram. Við erum búin að vera hér í nokkra daga, þetta er fyrsta vikan, og vissir hv. þingmenn hafa nú þegar hafið málþóf (Gripið fram í.) með því að misnota þennan lið. Það vita allir (Gripið fram í: Þú ert ekki í …) sem eru hér inni. (Gripið fram í.) Ef við ætlum að gera það skulum við að minnsta kosti ekki segja á opinberum vettvangi að við viljum breyta starfsháttum þingsins og auka virðingu þess. Við skulum segja eins og er, að allir þeir liðir sem hægt er að misnota verði misnotaðir í þágu einhvers málstaðar.

Það eru næg önnur tækifæri fyrir þingmenn til að koma skilaboðum áleiðis þótt við tökum ekki þennan lið í gíslingu.